137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[14:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. formanns umhverfisnefndar. Ég skil það þannig að vandlega verði farið yfir málið í nefndinni og þess gætt að ræða við hagsmunaaðila og aðra þá sem kunna að hafa áhuga á að ræða þetta mál við nefndina.

Ég vil aðeins koma inn á þau orð að þeir sem eigi hagnaðarvon eigi að greiða fyrir þá umsýslu sem eðlileg getur talist. Ég get alveg verið sammála formanninum um að það sé eðlilegt að hafa einhvers konar gjöld á þeim sem virkilega sýna hagnað og arð í svona starfsemi, en við megum passa okkur á því að þær reglur og þau lög sem við setjum hér verði ekki til þess að draga kraftinn úr þeim sem vinna í nýsköpuninni, eru frumkvöðlar á þessum vettvangi. Það er fyrst og fremst það sem ég vara við, að við setjum lög eða reglur sem geri það að verkum að þessir aðilar haldi jafnvel að sér höndum eða hafi ekki tök á að fara í þær rannsóknir sem þarf. Við þurfum á þessu að halda í dag og eigum að vera hvetjandi.