137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[14:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, ekki síst á þessum tímum eigum við allt okkar undir því að hér þróist ný atvinnustarfsemi, ný tegund fyrirtækja, og í líftækninni eigum við nokkur verðmæt fyrirtæki. Þau hafa kannski ekki vaxið hratt en jafnt og þétt og ég er þeirrar skoðunar að sú umgjörð sem stjórnvöld hafa sett utan um slíka starfsemi sé býsna góð.

Sé það hins vegar ákvörðun að ívilna þeim með öðrum hætti en öðrum fyrirtækjum held ég að það sé ákvörðun sem er tekin um aðra þætti en þá sem hér um ræðir. Það eru skattalegar ákvarðanir og annað slíkt sem má vel athuga en í því þarf að gæta jafnræðis eins og alls staðar annars staðar í atvinnulífinu. Talandi um jafnræði þá er hér í raun og veru settur nákvæmlega sams konar rammi og er annars staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði.