137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[15:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Undanfarna daga hef ég fengið gríðarlega mikið af tölvupósti frá fólki sem hefur miklar áhyggjur af verkefni sem ORF ætlar að fara út í. Þau sem hafa skrifað mér, ásamt fleirum í umhverfisnefnd, kvarta sárlega yfir því að upplýsingagjöf til almennings hafi verið of lítil og réttur almennings til að gera athugasemdir gjörsamlega vanvirtur. Almenningur fékk nákvæmlega engan tíma til að kynna sér málið. Það er er afar brýnt að skoða þetta málefni og fá upplýsingar um það áður en þessum lífverum verður hleypt út í íslenska náttúru.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta frumvarp geri okkur kleift að skoða málið betur og hvort ekki sé tilefni til að fresta afgreiðslu þess þangað til búið er upplýsa almenning um hvaða hættur þetta boðar fyrir íslenska náttúru. Eins langar mig að spyrja hvort við fáum kannski betri merkingar á erfðabreyttum matvælum. Mér skilst að við séum hvað verst stödd af öllum þjóðum sem eiga að kallast siðmenntaðar varðandi merkingar á erfðabreyttum matvælum. Engar slíkar reglur eru til hér þannig að maður veit ekkert hvað maður setur ofan í sig.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna þessu og hlakka til að takast á við þetta málefni í umhverfisnefnd.