137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég skildi svar hæstv. ráðherra þá þýðir það sem hæstv. ráðherra boðar í raun og veru að hann hyggst skerða byggðakvóta í þeim byggðarlögum sem ættu að öllu óbreyttu að njóta hans á grundvelli þeirra reglna sem eru í gildi. Hæstv. ráðherra er í raun og veru að boða það að einstök byggðarlög muni fá 55% skerðingu á byggðakvóta sínum miðað við það sem hæstv. ráðherra var hér að segja.

Hæstv. ráðherra segir að hugmyndin sé ekki sú að fækka þeim byggðarlögum sem njóta byggðakvótans. Hæstv. ráðherra var að segja okkur að stuðst yrði við þær reglur sem gilt hafa um úthlutun á byggðakvótanum og um þær reglur hefur verið vaxandi sátt. Þær eru efnislegar og gagnsæjar og hafa tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram á fyrirkomulag byggðakvótans.

Nú er hæstv. ráðherra sem sagt að greina okkur frá því að lítil byggðarlög, Raufarhöfn, Vesturbyggð og ýmis önnur byggðarlög sem notið hafa byggðakvótans, muni þurfa að búa við rúmlega helmingsskerðingu á byggðakvótanum. Þetta er út af fyrir sig stefnumörkun og við getum rætt hana. En það er hins vegar mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra, þegar hann segir síðan í svari sínu hér áðan, að einnig sé gert ráð fyrir að auka aflaheimildirnar til þessara byggðarlaga. Það er ekki rétt. Strandveiðifrumvarpið sem svo er kallað gerir ekki ráð fyrir því að settar séu sérstakar heimildir fyrir minni byggðarlög. Þetta eru bara almennar heimildir fyrir alla þá sem uppfylla tiltekin skilyrði. Það kemur einmitt skýrt fram í frumvarpinu að ætlunin er að færa til aflaheimildir frá minni byggðarlögunum til hinna stærri. Trúr þessari sannfæringu sinni gerir hæstv. ráðherra þetta.

Það er mikill misskilningur að með þessum 2.500 tonnum sé verið að auka fiskveiðiréttinn úti í hinum litlu byggðarlögum. Það er alls ekki þannig. Einungis er verið að taka ákvörðun um það að skerða byggðakvótann og síðan að búa til þetta nýja fyrirkomulag sem flækir enn fiskveiðistjórnarkerfið í landinu.