137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega tilraunaverkefni og það snýst um að skerða réttindi annarra, réttindi þeirra sem hafa starfað í greininni, hafa starfað eftir gildandi leikreglum og núna er gripið inn í það, má segja, eins og úti í miðri á. Við erum á leiðinni yfir og reglum er breytt í miðri á.

Hér er nefnt að við höfum miklar áhyggjur af nýliðun í greininni en það kom ekki fram í mínu máli sérstaklega að ég hefði miklar áhyggjur af nýliðun í greininni. Staðreyndin er nefnilega sú að byggðakvótinn hefur átt þátt í því að hjálpa nýliðun í greininni. Dugmikið fólk hefur á sínum svæðum jafnvel keypt sér báta og einhvern kvóta, leigt síðan til sín, landað í heimabyggð og þannig náð sér í mikilvægan byggðakvóta til að standa undir rekstrinum. Nákvæmlega þannig hefur það verið. Sá árgangur sem að þeirri útgerð kemur hefur náð að kaupa sér meiri kvóta. Það er enginn rekstur þannig að það sé hægt að fara í hann með viljann einan að vopni. Það þarf yfirleitt alltaf fjármagn til að byggja upp atvinnurekstur og það er ekkert öðruvísi í sjávarútvegi.

Út af fyrir sig getur vel verið að við þurfum að skoða einhverjar leiðir í þessa átt. Það getur vel verið að við þá endurskoðun sem fyrirhuguð var í tíð síðustu ríkisstjórnar hefðu komið upp hugmyndir sem hefðu snúið að því að fara einhverjar svona leiðir í smáum stíl til að hafa tilraun. En tilraunirnar má ekki gera þannig að þeir sem veikir eru fyrir standi kannski ekki upp eftir þær. Það er það sem ég hræðist í þessu og þetta er að því leyti vanhugsað og þarf ítarlegri skoðun.