137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágætar undirtektir við málið í heild sinni. Það eru örfá atriði sem ég vildi víkja að sem hv. þingmaður minntist á. Í fyrsta lagi eru það þeir sem hafa selt sig út úr greininni og vilja koma inn í hana aftur með þessum hætti — og ég deili alveg þeim siðferðilegu sjónarmiðum sem þar koma fram. Við verðum hins vegar að átta okkur á því að þessar veiðar veita engin áunnin réttindi til veiða áfram, það er ekki framseljanlegt með nokkrum hætti. Þar fyrir utan er það mjög erfitt mál að takast á við ef farið yrði inn á þá braut sem hv. þingmaður var að minnast á. En ég viðurkenni þá siðferðilegu nálgun sem hv. þingmaður vekur hér athygli á.

Hvað varðar hámarksafla á dag, 800 kíló, get ég líka tekið undir þau sjónarmið hv. þingmanns að það væri eðlilegt að það væri 800 kílóa afli. En því miður erum við stödd í þessu kvótakerfi eins og er og þá eru veiðar bundnar svona við þessar tegundir. Þegar veiðileyfi eru veitt og skráð er það bundið við tegundir þannig að það er mjög erfitt að gera þetta eins og hv. þingmaður stakk upp á. En ég mundi glaður vilja finna leið til þess að þetta mætti verða með þeim hætti.

Hvað það varðar að við séum að taka frá veikustu og minnstu byggðunum og færa til annarra þá er það nú samt þannig að þetta helst innan svæðisins. Vissulega eru á þessu annmarkar en byggðakvótinn er bara veittur til árs í senn. Ég vil minna á að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skar (Forseti hringir.) byggðakvótann niður um 500 tonn í sinni ráðherratíð og var það ekki til að styrkja minnstu byggðirnar.