137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Róbert Marshall talar um að menn vilji hafa upplýsta umræðu og gagnkvæma og ekki ætla ég að deila við hann um skrif Morgunblaðsins eða hvernig ritstjórn þess fer fram. Mér finnst hins vegar mjög dapurlegt hvernig hann talar um viðtöl sem voru tekin við það fólk sem starfar í sjávarútvegi og var eingöngu að lýsa upplifun sinni af því sem fram undan er. Þegar menn kalla eftir upplýstum og sanngjörnum málflutningi gagnvart málunum verða þeir líka sjálfir að taka leppana frá augunum.

Ég kannast við fullt af fólkinu í viðtölunum og það segir hlutina eins og það sér það sjálft. Það er ekki að búa sér til neitt annað, búa til einhvern grátkór eða slíkt. Það lýsir bara þeim aðstæðum sem það lifir við. Að halda því fram, án þess að ég ætli að detta í þessa umræðu hér, að fyrningarleiðin sé fyrirséð — auðvitað er hún fyrirséð, það er hárrétt hjá hv. þm. Róberti Marshall. Það hefur margkomið fram að það er alveg fyrirséð að fullt af fyrirtækjum mun sigla í strand. Það er fyrirséð, það er alveg hárrétt.

Við erum þó sammála um að við sjáum vankantana á því þegar menn hafa selt sig út úr greininni. Um það erum við algerlega sammála. En frumvarpið sem við ræðum núna stoppar það ekki. Þeir sem hafa selt sig út úr greininni, farið með peningana burtu úr byggðunum og skilið þær eftir eins og hann las upp úr blaðagrein áðan, byggðirnar hafa verið fyrndar, koma aftur inn í greinina og það held ég að við ættum að sameinast um, ég og hann, að reyna að hnýta fyrir að þeir komi inn eina ferðina enn.