137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:56]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég tala um að ekki sé öllum sjónarmiðum gert jafnhátt undir höfði get ég t.d. vísað til Morgunblaðsins í dag þar sem fyrirsögnin er: „Fyrningin mun draga allan mátt úr mönnum“ og inngangurinn er: „Það er með ólíkindum óábyrgt hjá stjórnvöldum að ráðast á helsta atvinnuveg landsins með þessum hætti. Það er verið að drepa niður alla drift í greininni.“ Myndatexti í heilsíðuumfjöllun er: „Mér sýnist stjórnarflokkarnir vera að mála sig út í horn í þessu máli og ekki verði aftur snúið,“ segir útgerðarmaður um fyrningarleiðina. Myndatextar við þrjá viðmælendur blaðsins eru í fyrsta lagi: Skaði, í annan stað: Dyr lokast og í þriðja lagi: Firra, og þá hefur máli allra jafnræðis- og hlutleysisreglna verið hallað að mínu mati. Það er það sem ég er að benda á í umfjöllun minni.

Þetta er ekki leiðarasíða Morgunblaðsins sem ég hef oft verið ósammála. Þetta er fréttaskýring af hálfu blaðsins. Það er fyrrverandi blaðamaður hér og fyrrverandi formaður Blaðamannafélagsins sem hefur fjallað nokkuð um þessi mál. Ég tel mig hafa nokkurt vit á því um hvað ég ræði í þessum efnum. Það er athyglisvert að sjá hvernig Morgunblaðið hagar sér í þessari umræðu. Það eina sem ég er að benda á í þessum ræðustól á Alþingi er að það fer að verða umhugsunarefni hvort þeir sem eru ósammála þessu blaði eigi að vera að kaupa það. Af hverju eiga þeir að fá það inn um lúguna hjá sér þegar það er áróðurssnepill fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna?

(Forseti (UBK): Ég minni hv. þingmenn á að óska eftir leyfi forseta þegar þeir lesa úr prentuðu máli.)