137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að þeir sem tala núna hvað hæst um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu séu líka opnir fyrir öðrum hugmyndum en fyrningarleið. Ég er t.d. þeirrar skoðunar og þannig manneskja að mér finnst alveg þess virði að skoða hvort kerfi sem er þannig gert að þeir sem vilja ekki, geta ekki eða sjá sér einhverra hluta vegna ekki lengur fært að vera í greininni selji veiðiheimildir til þeirra sem vilja vera í greininni eða vilja fara inn í hana. Þetta er kallað markaðshagkerfi. Það er ekkert því til fyrirstöðu og ég tel raunar alveg skýrt að þjóðin eigi þessar veiðiheimildir þó að kerfið sé svona.

Það getur vel verið að það sé skynsamlegra að hafa kerfið markaðskerfi með ýmsum takmörkunum og skýrum íhlutunarrétti ríkisins enda eru veiðiheimildirnar í eigu ríkisins. Þetta getur verið hagkvæmara og gagnsærra, að því gefnu að verðmyndunin á leigu- og kaupkvóta sé gagnsæ, og betra fyrir byggðirnar en kerfið sem hér er boðað undir nafngiftinni fyrningarleið þar sem ríkisvaldið sér um að leigja út kvótann eða selja hann. Ég er ekki viss um að það sé betra fyrir byggðirnar. Ég er ekki viss um að það sé betra fyrir fjárfestingar í greininni og fyrir varanleikann sem þarf að vera til staðar. Ég held að ýmsir annmarkar séu á því og ég held að það verði minni sátt um verðmyndun á kvótanum ef kerfið er þannig.

Þegar ég tala um að einhverjir telji það óréttlæti að þeir sem hafa selt kvóta sinn, þeir smábátaeigendur, veiði núna frítt er ég bara að vísa til sjónarmiða sem maður hefur heyrt á mörgum bryggjusporðinum (Forseti hringir.) í sjávarplássunum. Þeir sem keyptu kvóta sjá núna þá sem seldu fara í bátana sína og veiða frítt. Ég held að (Forseti hringir.) margir setji spurningarmerki við þetta.