137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef hv. 8. þm. Suðurk. Róbert Marshall gat ekki lesið úr orðum mínum það góða innlegg og þá góðu hugmynd sem ég kom með að öðruvísi kerfi í sjávarútvegsmálum en hann var einmitt í andsvari að auglýsa eftir slíkum hugmyndum. Ég lét í ljós að sumir aðilar telja að það þurfi ekki endilega að vera rökrétt skref þó að þjóðin eigi heimildirnar að ríkisvaldið eða einhver deild í sjávarútvegsráðuneytinu eða Fiskistofa selji endilega eða leigi heimildirnar.

Það er mikilvægt að þeir sem mæla fyrir því kerfi kunni að takast á við spurningar eins og: Hvernig ætlar sjávarútvegsráðuneytið eða Fiskistofa að deila út þeim heimildum? Og: Verður slíkt kerfi hagkvæmt fyrir þennan geira? Verður það betra fyrir byggðirnar að því gefnu að hér er um takmarkaða auðlind að ræða?

Þeir eru til sem segja, og þar á meðal er ég svolítið opinn fyrir því, að þjóðin eigi jú heimildirnar enda er það alveg skýrt í lögunum en það þarf að skýra það betur í stjórnarskrá en hins vegar séu ákveðnir kostir við það að kerfið sé þannig að þeir sem ekki hafa áhuga á því að vera lengur í greininni eða geta einhverra hluta vegna ekki verið lengur í greininni eða veitt allan þann fisk sem þeir hafa heimild upp á selji eða leigi heimildirnar til annarra í gegnum gagnsætt ferli, og það þarf að laga það ferli. Síðan hefur ríkið á hverjum einasta tímapunkti íhlutunarrétt í þetta kerfi og getur lagað það til eftir réttlætissjónarmiðum, (Forseti hringir.) byggða- eða hagræðingarsjónarmiðum.