137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið mikil umræða í dag um það frumvarp sem hér liggur fyrir og áhugavert hvernig menn fara út um víðan völl og tala um eitthvað sem er ekki endilega á dagskrá.

Ég fagna þessu frumvarpi eins og fleiri hv. þingmenn. Þetta er kærkomið að mínu viti fyrir litlu byggðirnar þó að ýmsir hafi haldið öðru fram og hafi af því miklar áhyggjur. Ég held að það sé okkar hlutverk að sníða af kerfinu þá annmarka sem á því eru og stuðla að því að reyna að ná um það sátt og þetta er að mínu viti hluti af því.

Það er mikið búið að tala um byggðakvótann sem þetta byggir að hluta til á, hvernig nýliðun getur átt sér stað og hvort hún hefur þá átt sér stað yfir höfuð með þessum byggðakvóta. Ég held ekki. Ég held að hún hafi ekki átt sér stað með honum. Þetta er liður í því að breyta.

Varðandi það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði áðan um þá aðila sem eru búnir að selja sig út úr kerfinu er sú spurning sem brennur mjög á mörgum og finnst óréttlátt að slíkt geti gengið eftir. Aflaheimildirnar hafa ekki verið bundnar við einstaklinginn, heldur við útgerðina og það er mjög auðvelt að fara í kringum svona eins og hv. þm. Atli Gíslason kom inn á. Þar af leiðandi er nánast ógerlegt að eltast við það.

Öll sú umhyggja sem hér hefur verið sýnd litlu byggðunum og stöðu þeirra er vonandi bara jákvæð og skilar sér inn í málefnalega umræðu í sjávarútvegsnefnd.

Ég tel að þessar auknu strandveiðar hjá smábátum og fækkun stærri skipa á grunnslóðinni færi líf í hafnirnar úti um allt land. Mér finnst þetta réttlætismál. Sá áróður sem byggist á ótta, hvort sem það er varðandi þetta mál eða sjávarútvegsstefnuna yfirleitt, er ekki eitthvað sem við eigum að láta stýra verkum okkar. Það er hugmyndafræðin eða skortur á hugmyndafræði í byggðastefnu landsins síðustu 40 árin sem þarf að taka til í. Hún hefur svolítið einkennst af því að hugsa hratt og skammt og hefur ekki virkað endilega vel fyrir landsbyggðina, ekki fyrir landsbyggðina og varla landið yfirleitt. Það hefur svolítið verið gert ráð fyrir kjörtímabilunum og ýmislegt látið taka mið af þeim.

Í sjálfu sér finnst mér ástæða til að við skoðum þetta vel og vandlega þegar þessu er lokið. Hér hefur verið talað mikið um þennan byggðakvóta og það er búið að úthluta, held ég, í mínu sveitarfélagi um 10% af byggðakvótanum. Það er allt og sumt. Ég held að þriðja hæsta kvótaútgerð á landinu sé í Fjallabyggð og það er líka umdeilanlegt að stóru frystitogararnir fái úthlutað byggðakvóta. Ekki nýtur vinnslan í landi góðs af honum. Svo er spurningin hvort vinnsla í landi hefur yfir höfuð haldið út á þeim stöðum. Sumir hafa ákveðið að þeir taki ekki þessa eða hina stærð af fiski þannig að mönnum hafa verið settar ýmsar skorður varðandi löndun.

Það er búið að fara einhverja hringi með úthlutunaraðferðir í byggðakvóta. Sú sem er við lýði núna virkar ekki sem skyldi að mínu mati. Ég lít ekki á það sem skerðingu þótt þetta sé minnkað. Ég vona að þeir bátar sem koma til með að sinna þessum strandveiðum skili vinnu í sveitarfélögin og hjá þeim sem þær sækja. Það er ekki eins og það sé verið að leggja af veiðiskap. Hann verður bara framkvæmdur svolítið öðruvísi.

Smáatriðin sem komið var inn á varðandi klukkutíma og annað því um líkt má ræða betur í nefnd og eflaust er hægt að komast að samkomulagi um þau. Eins og þetta lítur út ættu menn þó að geta sammælst um að þetta fari fljótt í gegnum góða umræðu í nefndinni, aðilar kallaðir til og fengin álit tiltölulega hratt og örugglega.

Ég tek undir varðandi frístundaveiðar sem eru líka stór hluti af þessu frumvarpi. Þetta eru ekki bara handfæraveiðarnar. Ég held að það komi til með að breyta afskaplega miklu fyrir ferðaþjónustuna, t.d. í mínu kjördæmi þar sem menn hafa ekki getað sinnt þeim áhuga sem til staðar hefur verið vegna þess að kvóta hefur vantað og menn hafa ekki getað keypt. Það var talað um dýra báta áðan og ég held líka að nýliðunin sem hefur verið fólgin í því að kaupa kvóta hafi ekki skilað sér. Ég ber þá von í brjósti að sjávarútvegsnefnd komist að góðri niðurstöðu um þetta frumvarp og hleypi því tiltölulega fljótt og vel í gegn. Ég hef þá trú að menn nái að vinna saman að því.