137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa ágætu umræðu sem fram hefur farið um frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Eðlilega hefur hv. þingmönnum verið tíðrætt um hina ýmsu þætti í fiskveiðistjórnarkerfinu. Er það bara í hæsta máta eðlilegt enda stórmál á ferðinni þótt það snerti ekki beina efnisþætti þessa frumvarps.

En ég vil þakka fyrir almennt góðar undirtektir við frumvarpið og alla meginþætti þess. Ég vil vekja athygli á einu í þessu sambandi: Menn hafa verið að tala um að það komi seint fram og óvænt. En það var lagt fram 18. mars, að mig minnir, í ríkisstjórn af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og tilkynnt að út í þetta yrði farið. Þá var það kynnt allrækilega í meginatriðum í fréttatilkynningum og umfjöllun.

Það var líka kynnt mjög rækilega fyrir kosningar þannig að þessi hugmyndafræði er búin að fá mikla umfjöllun og líka í hinni pólitísku baráttu fyrir kosningar. Þetta er því dæmi um hvernig rétt er að vinna, þ.e. að koma þessum áformum fyrir fram á framfæri.

Varðandi einstök atriði sem spurt hefur verið um svara þau sér eiginlega sér sjálf. En ég minni á að þetta er ekki nema lítið brot af heildaraflamarkinu sem er í landinu og því er ætlað skilgreint hlutverk í þeim efnum. Það er því mikilvægt að við komum þessu í gang og getum dregið lærdóm af þeirri reynslu sem af þessu verður.

Varðandi úthlutun á þeim byggðakvóta sem eftir stendur, verði þetta frumvarp samþykkt á hv. Alþingi, sem ég vonast fastlega til að gerist sem fyrst, er unnið að því í ráðuneytinu að sú skipting verði tilbúin nánast samtímis og þetta frumvarp verður afgreitt. Að því er stefnt og ef það tekst skilst mér að það yrði með alfyrsta móti sem byggðakvóta hefur verið útdeilt. Ég mun alla vegana hvetja til þess að því marki sem ég get til þess að sú ákvörðun liggi fyrir þannig að hægt sé að taka heildstætt á þessum málum.

Ég þarf svo sem ekki að hafa fleiri orð um þetta ágæta mál. Það fer nú til hv. sjávarútvegsnefndar og einstök atriði sem hér hefur verið minnst á og geta verið álitaefni, fá þá nánari umfjöllun þar. Þá gefst öðrum hagsmunaaðilum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þetta mál tækifæri til að koma þeim til nefndarinnar til umræðu. En ég þakka mjög jákvæðar undirtektir við málið í heild sinni og vona að það nái fram að ganga. Menn meta svo árangurinn af þessum breytingum að fiskveiðiárinu loknu.

Ég vil aftur minnast stuttlega á það sem ég gat um í andsvari mínu við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að hugur minn stendur til og það er nefnt í umsögn með frumvarpinu að tengja staðbundin rannsóknarsetur þessari vinnu, þ.e. hvernig meta megi þennan árangur. Að sjálfsögðu hefur Fiskistofa yfirumsjón með málinu. En hugur minn stendur til að þetta starf í heild sinni verði tengt sem allra mest staðbundnum samfélögum og þá þeim rannsóknarstöðvum sem þar eru og hafa sprottið upp og byggst upp á grundvelli þeirra samfélagslegu þátta sem að baki þeim standa. Það er vilji minn að tengja það svo að þar vinni saman bæði sjómenn og heimasamfélag .

Frú forseti. Ég þakka góða umræðu og treysti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til þess að leiða þetta mál farsællega aftur inn í þingið.