137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi spurningar hv. þingmanns um það hvort tengja eigi þetta enn meira við byggðirnar þá var það vissulega rætt og þetta hefur nú tengst þessum svæðum með þeim hætti sem tilgreint er. Vissulega kom til álita að tengja þetta beint einstökum sjávarbyggðum með hliðstæðum hætti og byggðakvótinn er nú. Ég tel að það sé alveg sjónarmið. Það varð reyndar ofan á í þessari vinnu að þessu yrði svæðisskipt með þessum hætti en þá eru þeir jafnframt skuldbundnir, viðkomandi bátar, til að vera skráðir á tilteknum stað. Það er ákveðinn klukkustundafjöldi sem báturinn hefur frá því að hann fer frá landi og þangað til hann landar þannig að ekki er hægt að fara mjög langt um hvað þetta varðar.

Það er líka óheimilt að skipta um skráningarstað eða heimili innan þessa tímabils þannig að þarna er sett nokkur takmörkun. En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hefði talið og tel að það eigi að byggðatengja þetta með sem mestum hætti. Vel má vera að einhver önnur sjónarmið geti komið þarna inn og treyst það.

Varðandi önnur þau atriði sem hv. þingmaður spurði um þá var ég búinn að svara þessu með byggðakvótann, hvernig honum verði úthlutað. Það er erfitt að úthluta honum fyrr en sést þá fyrir með afdrif frumvarpsins, ég vona að afgreiðsla þess gangi hratt og vel fyrir sig. En ég minni aftur á að takist að úthluta byggðakvótanum strax eftir að sjá má fyrir afdrif frumvarpsins, þ.e. í byrjun júní, um mánaðamótin, væri hægt að úthluta þeim byggðakvóta sem ætlunin væri að úthluta og það væri í sjálfu sér nýmæli, frú forseti.