137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þó alla vega nýmæli í þessu máli að þessi spurning svarar sér ekki sjálf, hæstv. ráðherra kaus a.m.k. að svara henni. Ég spurði hvort komið hefði til greina að binda þetta með einhverjum hætti við byggðirnar. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að á því geta verið ýmsir praktískir annmarkar en þetta er mjög eðlileg spurning í ljósi þess að verið er að nýta fiskveiðiréttinn úr byggðakvótanum til þess að stunda þessar strandveiðar sem svo eru kallaðar.

Ég vil vekja athygli á því að þau svæði sem talað er um í frumvarpinu eru býsna stór. Ég tók dæmi af svæði A en það nær frá útgerðarbyggðinni Eyja- og Miklaholtshreppur alla leið að Skagabyggð, og gerir það að verkum að aðilar sem eru skráðir með báta sína á Snæfellsnesi geta þess vegna gert út frá Skagaströnd. Það mundi út af fyrir sig þá væntanlega ekki nýtast, a.m.k. vinnsluþátturinn, fyrir heimabyggðina.

Ég vildi vita hvort hæstv. ráðherra hefði velt þessum möguleika upp og hann hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessum efnum. Svarið við þessu væri þá væntanlega það að minnka þessi svæði ef menn vildu reyna að tengja þetta með einhverjum hætti betur við byggðirnar svo að ég hugsi í lausnum fyrir hæstv. ráðherra. En það hefur líka verið rætt hér að markmiðið með þessu sé að reyna að auka aðgengi manna að auðlindinni og þá er það auðvitað sjónarmið sem gengur í þveröfuga átt — það mundi væntanlega leiða til þess, ef menn vilja gera þetta aðgengi sem best, að svæðið ætti bara að vera eitt, ströndin við Ísland. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé ekki að hugsa um þetta í þeim anda. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra vilji reyna að styrkja byggðirnar þó að mér finnist að í þessu frumvarpi hafi honum tekist alveg einstaklega óhönduglega til í því efni.