137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

meðhöndlun úrgangs.

4. mál
[18:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sem er áður fram lagt en náði ekki fram að ganga á síðasta þingi.

Hinn 14. júní 2006 samþykkti Evrópuþingið og ráðið reglugerð Evrópusambandsins nr. 1013/2006 um flutning úrgangs sem tekin var inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hinn 6. júní 2008. Frumvarpið sem ég mæli hér með er sett fram til að treysta lagastoð þannig að hægt verði að innleiða reglugerðina. Reglugerðin er í samræmi við svokallaða BAN-samþykkt við Baselsamninginn sem er alþjóðasamningur um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra og gildir um innflutning úrgangs, útflutning úrgangs, flutning úrgangs á milli aðildarríkja og umflutning úrgangs. Hefðbundinn frestur Íslands til að innleiða reglugerðina í íslenska löggjöf rann út þann 6. desember 2008 og er því mikilvægt að innleiða gerðina í löggjöf hér á landi.

Með innleiðingu gerðarinnar í íslenskan rétt er stuðlað að aukinni umhverfisvernd, öruggri meðhöndlun og eyðingu spilliefna og annars hættulegs úrgangs og komið í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi, m.a. til að koma í veg fyrir að slíkur úrgangur sé fluttur til þróunarríkja til „einhvers konar“ óæskilegrar förgunar.

Að stórum hluta er nú þegar farið að vinna samkvæmt Evrópusambandsgerðinni hér á landi þar sem það er forsenda fyrir flutningi úrgangs til og frá Íslandi. Þannig er t.d. ekki hægt að flytja úrgang frá Íslandi til annarra EES-ríkja án þess að farið sé að þessum reglum, m.a. að lögð sé fram trygging og notuð rétt eyðublöð við tilkynningu á flutningnum. Komið hafa upp ýmsir vankantar í sambandi við flutning á úrgangi milli landa þar sem Ísland hefur ekki innleitt reglugerðina og er því afar mikilvægt að innleiða ákvæði hennar hér á landi sem fyrst til að sveitarfélög og atvinnulíf eigi ekki í vandkvæðum með að flytja úrgang úr landi.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um að lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, verði breytt á þann veg að ákvæði verði sett til að banna útflutning tiltekins úrgangs til tiltekinna landa, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar. Einnig er lagt til að bannað verði að flytja inn tiltekinn úrgang frá tilteknum löndum, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar. Gerð er tillaga um að sett verði skýr ákvæði um hvað skuli gera þegar um ólöglegan útflutning á úrgangi er að ræða og um skyldur aðila til að taka við honum til baka. Jafnframt er gerð sambærileg tillaga um hvað skuli gera þegar ólöglegur flutningur úrgangs frá öðru landi uppgötvast hér á landi. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um gjaldtökuheimild til handa Umhverfisstofnun vegna umsýslu við tilkynningar og eftirlit. Einnig er lagt til að lagastoð fyrir tilkynningarskyldu verði styrkt þar sem hún er nú aukin í Evrópusambandsgerðinni og nær yfir úrgang á svokallaðri „grænni skrá yfir almennan úrgang“. Sömuleiðis er í frumvarpinu kveðið á um upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar og um hve mikið af þeim upplýsingum skuli bundið trúnaði.

Í framhaldi af gildistöku laganna, verði frumvarp þetta að lögum, þarf að setja nýja reglugerð sem innleiðir ákvæði reglugerðar EB nr. 1013/2006 og fellir um leið úr gildi reglugerð nr. 224/2005, um gildistöku EES-gerða um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og frá Evrópubandalaginu.

Þá er að auki lögð til breyting á 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs á þann veg að sá sem er með rekstur á sviði úrgangsmeðhöndlunar skuli skila til Umhverfisstofnunar upplýsingum um þær tegundir úrgangs sem eru endurnýttar eða endurnotaðar, um heildarmagn úrgangs og um árangur af vöktunaráætlun fyrir næstliðið ár. Þannig er lagt til að auk þess að skila inn upplýsingum um tegundir úrgangs sem er fargað, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi ákvæði laganna, skuli einnig skila inn upplýsingum um tegundir úrgangs sem eru endurnýttar og endurnotaðar. Þetta er m.a. gert til að fá tölulegar upplýsingar sem skila á til Eftirlitsstofnunar EFTA og til að fylgjast með því hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem sett eru um endurnýtingu. Þá er nauðsynlegt fyrir frekari stefnumótun hér á landi að hafa upplýsingar um magn úrgangs sem er endurnýtt og endurnotað.

Frú forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.