137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 35, 35. máli, en um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem kunnugir nefna jafnan til styttingar lög um búvöru eða einfaldlega búvörulög.

Frumvarpi þessu er ætlað að gera nauðsynlegar og eðlilegar breytingar á búvörulögum vegna þeirra samninga sem ríki og bændur undirrituðu hinn 18. apríl sl. um breytingar á gildandi samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu hér á landi.

Af hálfu fulltrúa bænda voru samningar þessir bundnir fyrirvara um samþykki í atkvæðagreiðslu. Niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu mun vera að vænta í byrjun júní. Þrátt fyrir það tel ég rétt að mæla fyrir þessu frumvarpi í dag og vil hvetja um leið til þess að það verði falið hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til nánari athugunar. Verði úrslit þessarar atkvæðagreiðslu á hinn bóginn á þann veg að bændur hafni samningnum leiðir auðvitað af því að málið verður fellt niður á þingi.

Væntanlega er flestum þingmönnum kunnugt um þá skerðingu á verðbættum framlögum samkvæmt búvörusamningum sem gerð var með fjárlögum ársins 2009 og markar upphaf þessa máls. Skerðingin var ákveðin með litlum fyrirvara vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar falls bankanna. Henni var á sínum tíma mótmælt af bændum. Í framhaldi af því funduðu samtök bænda með stjórnvöldum til að leita leiða sem tryggt gætu aðhald í ríkisfjármálum og langtímahagsmuni bænda.

Það er fagnaðarefni að samtök bænda og ríkisstjórnin hafa að loknum þessum viðræðum náð þeim samningum sem ég mæli fyrir með frumvarpi þessu en með þeim er ágreiningur um skerðinguna úr sögunni.

Samningarnir eru sáttargerð um eftirgjöf af hálfu bænda á fjárframlögum samkvæmt búvörusamningum. Um leið eru samningarnir framlengdir um tvö ár. Með þeim er reynt að tryggja rekstraröryggi landbúnaðarins og draga úr óvissu um afkomu bænda en margir þreyja nú erfiða baráttu við að hagræða í búrekstri vegna aukins fjármagnskostnaðar og þess að aðföng hafa hækkað í verði. Þessu tengist að í samningunum er að finna viljayfirlýsingu um að aðilar beiti sér fyrir könnun á skuldastöðu bænda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar.

Ég bind vonir við að þau markmið sem stefnt er að með samningunum takist en með því er stigið þýðingarmikið skref til að verja stöðu landbúnaðarins og fæðuöryggi þjóðarinnar á þeim viðsjártímum sem við nú lifum. Er þetta einnig að fullu eftir því sem tekið er fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna varðandi stöðu landbúnaðarins.

Rétt er að geta þess að umrædd skerðing náði einnig til aðlögunarsamnings garðyrkjubænda. Ekki hefur hins vegar tekist samkomulag við garðyrkjubændur vegna hennar. Þar veldur einkum óánægja þeirra með kjör við kaup á rafmagni. Það mál er til athugunar og vona ég að þar megi enn þá ná farsælli sátt.

Loks vil ég geta þess að í frumvarpinu eru lagðar til minni háttar breytingar á heimild til greiðslu álags vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt til hagsbóta fyrir kaupendur fjárskiptafjár.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.