137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra reynir að skauta fram hjá því sem ég vakti athygli á. Gagnrýni hans laut ekki bara að hinum lögfræðilega þætti þessa máls, sem vissulega var ágreiningur um, það hef ég sjálfur viðurkennt. Það voru gagnstæð álit uppi um þetta og það lá fyrir að Bændasamtökin mundu vefengja lögmæti þessarar ákvörðunar ríkisvaldsins.

En hitt er jafnljóst að hæstv. ráðherra hafði uppi mjög stór orð á haustdögum um þetta mál efnislega og það var það sem ég var að vekja athygli á. Ég var að vekja athygli á því að hæstv. ráðherra væri búinn að endurskoða sinn hug, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni í þeim efnum, og hefði komist að sömu niðurstöðu og ég komst að á sínum tíma, þ.e. að okkur væri nauðugur einn kosturinn í þessum efnum.

Af því að hæstv. ráðherra er að tala um samninga í þessum efnum vil ég vekja athygli á því sem ég tæpti aðeins á hér áðan, þ.e. að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, nálgaðist þessa samninga með þeim hætti að hann kom á búnaðarþing 1. mars sl. og sagði einfaldlega með einhliða yfirlýsingu sinni að þessi skerðing yrði ekki dregin til baka fyrir árið 2009. Hann bætti um betur og sagði að hún yrði líka á árinu 2010.

Þetta er út af fyrir sig samningatækni. Það skal ég viðurkenna. En þetta eru auðvitað ekki samningar í þeim efnum að hæstv. ráðherra er að lýsa yfir ásetningi sínum í þessum efnum. Ég er út af fyrir sig ekkert að gagnrýna þetta. Ég er ekkert að gagnrýna þetta efnislega vegna þess að ég geri mér mætavel grein fyrir þeirri erfiðu stöðu sem uppi er. Ég tel að í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem við stóðum frammi fyrir í haust og stöndum frammi fyrir núna sé sú niðurstaða sem fengist hefur í þessum samningum viðunandi fyrir alla aðila og skynsamleg. Hún er mjög í anda þess sem ég var að vinna að strax í byrjun þessa árs og tel að góður gangur hafi verið í. Enda leiddu þeir samningar sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon tók síðan við úr mínum höndum til farsællar niðurstöðu að þessu leytinu.