137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:36]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom réttilega fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að hér er um tvíhliða samning að ræða, samning sem er háður samþykki bænda og þarf að gangast undir atkvæðagreiðslu. Hér er um kjarasamning að ræða í þess orðs skilningi.

Honum var hins vegar breytt, búvörusamningnum, einhliða. Það var ólögmætt. Hjá Bændasamtökum Íslands liggur fyrir skýrt lögfræðilegt álit lögmanna Bændasamtakanna um að þessi gerningur fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, var ólögmætur. Hver er skoðun hv. þingmanns á því?

Telur hann að farið hafi verið fram með ólögmætum hætti eða ekki? Af hverju var bændum ekki hlíft? Af hverju var hoggið að þeim sem síst skyldi? Hverju svarar hv. þingmaður því? Af hverju var ekki forgangsraðað við þennan niðurskurð með félagslegum hætti? Af hverju var niðurskurðarhnífurinn látinn beinast að öllum, sjúklingum, bændum og hverjum sem var? Af hverju mæltist hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra ekki til um það að það yrði skorið niður félagslega?

Aðalatriðið í þessu máli er hins vegar það að náðst hefur sátt við bændur. Fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra fór fram einhliða án tillits til bændanna, án tillits til þess að hér var um tvíhliða samning að ræða og lögbrot. Aðalatriðið er þetta: Er það skoðun hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að hann hafi staðið rétt að málum?