137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur við að ég taki mér í munn orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og segi að þessi spurning svari sér sjálf. Það gefur augaleið að enginn ráðherra og enginn þingmaður mundi fara fram með mál sem hann teldi að stangaðist á við lög. Það var auðvitað eftir að við höfðum látið skoða þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna, um að fara inn í verðbótaþátt búvörusamninganna, stæðist lög að ákvörðun var tekin um þetta.

Ég taldi hins vegar að í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru í þjóðfélaginu, og eru raunar enn, væri það viðunandi niðurstaða, þó að ekki væri hún góð, að gera þetta með því að skerða verðbótaþáttinn með sama hætti og verið var að gera almennt talað í almannatryggingakerfinu. Það hef ég margoft sagt og margoft vakið athygli á því.

Mín rök í þessu máli eru nákvæmlega sömu og rök hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í þjóðarbúskap okkar eru slíkar að þetta er óhjákvæmilegt. Við verðum auðvitað að reyna að forgangsraða og reyna að hlífa bændum eins og við mögulega getum. Það var gert með því að fara ekki inn í búvörusamninginn sjálfan, ekki inn í grundvöll búvörusamningsins, að verðbæta hann eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram 1. október, og gera það með svipuðum hætti og gert var varðandi almannatryggingarnar. Þetta eru auðvitað rökin.

Hv. þm. Atli Gíslason verður að spyrja sjálfan sig þessarar spurningar: Af hverju er þá ekki forgangsraðað með öðrum hætti þegar hann stendur að frumvarpi, eins og ég geri ráð fyrir að hann geri, sem hér liggur fyrir sem felur í sér skerðingu, og er í raun og veru viðurkenning á þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnarflokkarnir tóku fyrir síðustu fjárlagaafgreiðslu?

En ég ítreka: Ég tel að þessi samningur sem hefur náðst milli bænda og ríkisvaldsins sé fagnaðarefni, sé góður. Ég mun beita mér fyrir því að þetta mál fái farsæla niðurstöðu hér í þinginu þó að ég hljóti (Forseti hringir.) að rifja upp forsögu málsins og þann gjörsamlega viðsnúning sem orðið hefur í (Forseti hringir.) málflutningi fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.