137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ekki get ég tekið undir hamingjuóskir hv. 9. þm. Norðvest. til handa hæstv. landbúnaðarráðherra vegna hans fyrsta landbúnaðartengda þingmáls. Það verður að segjast eins og er að í ljósi margvíslegra ræðna hæstv. landbúnaðarráðherra úr þessum stóli á síðustu árum, um landbúnaðinn og stöðu hans, er hlutskipti hans ekki gott að þurfa að koma fram með sitt fyrsta þingmál og það skuli snúast um skerðingu hjá sauðfjár- og kúabændum. Einnig var það hálfhjákátlegt fyrir mig að sitja í salnum og hlusta á þá hæstv. landbúnaðarráðherra og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hálfrífast um það hvor hafi komið verr fram við bændur, annar með einhliða skerðingu og hinn með því að ná fram tvíhliða samningi með einhvers konar þvingunum eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom ágætlega inn á.

Því er nú mun betri mín staða að standa hér og verja stöðu Framsóknarflokksins þar sem þetta eru þeir samningar sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra framsóknarmanna, Guðni Ágústsson, kom á við bændur. Það verður að segjast eins og er að það gladdi okkur framsóknarmenn sem fórum fram á það í vetur að þessir samningar yrðu framlengdir þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stóð saman að því að framlengja samninga sem í það minnsta Samfylkingin hefur barist gegn öll þessi ár. Það má þó segja vinstri grænum til hróss að þeir hafi náð að draga það að landi. Ef við færum hins vegar að rifja upp allar ræður hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um þessa samninga þá er ég ekki viss um að þeir stæðust þá skoðun nákvæmlega.

En það verður líka að segjast eins og er að með þessari skerðingu í garð sauðfjárbænda og kúabænda, og vil ég þá taka undir orð vinstri grænna og annarra sem hér hafa komið og rætt málin, bæði við þessa umræðu en ekki síður umræðuna sem varð í vetur, er verið að skerða hlut aðila sem mega síst við því að verða fyrir slíkri skerðingu. Ég vil þó ekki taka undir orð hv. þm. Atla Gíslasonar þegar hann sagði að það yrði að fara varlega í að skerða hlut sjúklinga, bændur og aðra. Bændur líta á sig sem stolta eigendur fyrirtækja sinna og þeir vilja fyrst og fremst eiga þann möguleika að fá sjálfstæðan rekstrargrundvöll í fyrirtækjum sínum. Þeir líta ekki á samninga sem þeir gera við ríkisvaldið sem ölmusu eða einhvers konar félagslega aðstoð, sem að sjálfsögðu er nauðsynleg til þeirra sem þess þurfa, heldur líta þeir fyrst og fremst á þetta sem rekstrarlega samninga.

Þeir samningar og þær breytingar sem við horfum hér upp á mega þó eiga það — og það er virðingarvert af bændum að vera komnir til samningaborðsins, vera tilbúnir þó að þeir hafi kannski á einhvern hátt verið þvingaðir til þess í ljósi þess ástands sem var hér, þ.e. að búið var að skerða hlut þeirra af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks — það er virðingarvert að þeir séu tilbúnir að taka þessar byrðar á sig. En það mætti kannski spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hugsi sér — ef peningamálastefnan og efnahagsstefnan verði með þeim molum og glundroða sem hún er í dag, ef verðbólga og gengisfall krónunnar heldur áfram og þessi skerðing verður óbærileg fyrir bændur — að taka þessa samninga upp eða tryggja að bændur verði ekki fyrir óbætanlegum skaða.

Á sama hátt má líka spyrja, ef það ótrúlega gerðist að við næðum tökum á peningastefnu og efnahagsmálum fyrr en lítur út fyrir í dag, hvort til greina komi að sú skerðing sem bændur taka á sig með þessu á þessu ári og næsta, og jafnvel líka á árinu 2011, verði með einhverjum hætti bætt. Ég tek hins vegar undir orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar um þá vandræðalegu stöðu að skilja garðyrkjubændur eftir í þessum samningum. Þeir voru fyllilega tilbúnir að standa við hlið annarra bænda og ganga til samninga um eðlilegar byrðar sem allir þurfa að taka á sig í samfélaginu en þá gátu þeir það ekki vegna þeirrar skerðingar sem samhliða var sett á vegna flutnings raforkuverðs til garðyrkjunnar. Það væri líka gaman að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra að því hvort hann sé þá ekki að vinna að því að garðyrkjubændur geti uppfyllt þennan samning. Ég hef fullvissu um að þeir séu tilbúnir að gera það ef þeir fá að greiða eðlilegt verð fyrir flutning á raforku og kostnað við það.

Varðandi einstök efnisatriði samningsins verð ég reyndar að viðurkenna að breytingin á 2. gr., sem fjallar um breytingar á greiðslum til þeirra sem verða fyrir því að ríkisvaldið ákveður að skera niður fjárstofn þeirra vegna riðu — ég verð að viðurkenna að ég skil ekki nákvæmlega hvað hér á að fara fram. Annars vegar virðist sem bæta eigi álagi ofan á þau lömb sem eru tekin en hins vegar að lækka kostnað um 3–10 millj. kr. úr þeim sjóði og þeim bókhaldslykli sem telur — eins og hér stendur, með leyfi forseta vitna ég í fjármálaráðuneytið: „Þá má gera ráð fyrir að greiðslur til ríkissjóðs vegna riðuveiki kunni að lækka um 3–10 millj. kr. á næstu árum.“

Er þessi liður þá hugsaður þannig að staða þeirra sem verða fyrir því óláni að þurfa að sæta því að fjárstofn þeirra er skorinn vegna riðuveiki verði með einhverjum hætti erfiðari, að erfiðara verði að sækja sér þær nauðsynlegu bætur eins og hér stendur, þ.e. að það eigi að koma í samningnum við bæði bætur, hreinsun og slíka hluti, því að nóg er samt í þeim málaflokki. Það væri verðugt mál að taka upp í þinginu og ræða þau ósköp sem það fólk þarf að búa við sem verður fyrir þeim háska og leiðindum að þurfa að skera niður fé sitt, og verulegum fjárskaða.

Það er sérkennilegt að þurfa að ræða um einhliða eða tvíhliða samninga um skerðingu á verðbótum til bænda í ljósi þess að við vitum ekki hvort þeir munu samþykkja þessa samninga. En ég tek undir orð hæstv. landbúnaðarráðherra að það er auðvitað mikilvægt að sá samningur liggi fyrir ef af því verður. Við munum þá væntanlega taka samninginn af dagskrá ef bændur fella hann. Ég ítreka það að mér fannst virðingarvert af bændum að ganga til þessara samninga á sínum tíma og mér finnst það líka gleðilegt fyrir okkur framsóknarmenn, sem fórum fram á það í vetur að samhliða þessu fyndist okkur eðlilegt að samningarnir yrðu framlengdir um þessi tvö ár, því það tryggir auðvitað rekstrargrundvöll og stöðu bændastéttarinnar að fá lengri aðlögun. Og ég ítreka að það er gleðilegt að Samfylkingin skuli hafa samþykkt þessa samninga sem hún hefur barist gegn allan tímann sem framsóknarmenn hafa barist fyrir þessum samningum.

Ég bið hæstv. landbúnaðarráðherra að velta því aðeins upp hvort ekki hefði verið betra fyrir hann að koma með sitt fyrsta mál, málefni sem tengdust efnahagsmálum og peningastefnu, því að í raun og veru eru það þau mál sem eru alvarlegust hjá bændum eins og öllum öðrum fyrirtækjum í landinu. Það gengur auðvitað ekki að við skulum ekki vera að ræða þau mál, þ.e. að sú staða er uppi að gengið skuli hrynja og að vextir og okurvextir skuli vera í þeim hæðum sem við þekkjum — að þá skulum við vera að ræða um skerðingu á verðbótum í staðinn fyrir að ræða um hvernig hægt sé að koma þessari grein til aðstoðar eins og öllum öðrum rekstrargreinum í samfélaginu. Bændur vilja ekki sitja við annað borð en aðrir aðilar sem sinna rekstri í þessu landi.

Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnina alla til að koma með mál sem mundu gera það að verkum að peningastefna stjórnarinnar færi að sjást og efnahagsstefna þannig að gengið færi að styrkjast. Ég vona að við förum að sjá þeirra yfirlýsinga stað sem hér hafa verið gefnar á liðnum dögum — þess efnis að peningastefnan og efnahagsstefnan, og þar af leiðandi ákvörðun um stýrivexti, sé ekki í höndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur í höndum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans — í raunverulegum aðgerðum og raunverulegum frumvörpum sem koma inn á þingið í stað þess að við séum að fjalla um mál eins og við vorum að fjalla um í dag og í stað þess að þurfa illu heilli að ræða frumvarp til laga þar sem skerðing kemur fram. Miklu áhugaverðara væri að ræða um einhverjar hjálparaðgerðir sem nauðsynlegar eru í þessari atvinnugrein.

Ég lýsi því hins vegar yfir að við munum fara vel yfir þetta mál í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég er þess fullviss, eins og aðrir sem hér hafa talað, að efnislega munum við væntanlega komast fljótlega að einhverri niðurstöðu sem er í samræmi við þá samninga sem bændur hafa gert við ríkisvaldið. Ég treysti því að ríkisstjórnin og hæstv. landbúnaðarráðherra fari að snúa sér að því að bæta efnahagsástandið í landinu bændum til heilla í stað þess að þurfa að koma með svona plögg inn í hverri viku.