137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[19:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra viðbrögð við ræðu minni. Álagsgreiðslur skýrði hann á þann veg, eins og ég hafði einmitt skilið það, að þær séu teknar út úr sameiginlegum sjóði. Þær eru teknar af öllum sauðfjárbændum og síðan er liðurinn inni í þeim fjármunum sem eru settir til riðuvarna eða hreinsunar og endurgreiðslu til þeirra sem hafa orðið fyrir fjárskaða vegna riðuniðurskurðar lækkaður um 3–10 milljónir þannig að þessi greiðsla lækkar. Ég held að við verðum að fara yfir það í nefndinni hvort þetta hefur raskandi áhrif á þá aðila og þá verðum við að tryggja að svo verði ekki, ég er sammála því. Ég er líka sammála því að þetta er ekki stórmál, ekki fjárhagslegt, en það getur verið það gagnvart einstökum aðilum ef um það væri að ræða.

Ég fagna einnig eins og hæstv. landbúnaðarráðherra lengingu á samningnum. Ég tel það hafa verið lykilinn að því að bændur voru tilbúnir til þess að gangast undir þessa neyðarsamninga. Ég get þar af leiðandi ekki farið að hrósa hæstv. landbúnaðarráðherra, ríkisstjórn eða fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir vinnubrögðin. Við búum við mjög erfiðar aðstæður og menn eru komnir upp að vegg og telja sig ekki geta gert annað. Það er ekki eins og þetta hafi verið fúsir og frjálsir samningar um niðurskurð. Menn voru hreinlega tilneyddir, og til þess að gera eitthvað fóru þeir í þetta. Ég tel það virðingarvert af bændum að hafa farið þessa leið. Ég get líka tekið undir það með hæstv. landbúnaðarráðherra að þetta gæti hugsanlega verið fordæmi til annarra stétta í landinu um hvernig við þurfum öll að taka höndum saman um vinnubrögð af þessu tagi. En að hrósa sér af því sérstaklega að vera kominn út í horn og ná samt tvíhliða samningi út úr því — ég veit ekki hvort við eigum að fara að kalla það sérstaklega glæsileg vinnubrögð út af fyrir sig.