137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[19:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða virðist ætla að enda á heldur ljúfum og elskulegum nótum þannig að ég ætla bara að bæta í það púkk og segja að ég tel að eitt mesta afrekið í þessum samningi sé í því fólgið að fá Samfylkinguna að borðinu. Það eru þó alla vega pólitísk tíðindi að nú liggur það fyrir að Samfylkingin mun bera ábyrgð á búvörusamningunum. Það eru út af fyrir sig heilmikil tíðindi eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, 3. þm. Suðurk., vakti athygli á. Við vitum að Samfylkingin hefur dregið lappirnar hvenær sem hún hefur komið að málefnum landbúnaðarins og það að Samfylkingin sé þó alla vega orðin þátttakandi í því að staðfesta búvörusamninga og framlengja þá til tveggja ára eru í sjálfu sér nokkur pólitísk tíðindi og mjög jákvæð tíðindi. Kannski gefur það okkur einhverjar vonir um betri framtíð í þessum efnum þegar kemur að áframhaldandi vinnu sem snýr að landbúnaðinum.

Hér komu aðeins til tals málefni garðyrkjubænda. Það er ljóst að þeirra mál eru enn óleyst. Ég vil inna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir því hvað sé að frétta af þeim viðræðum sem hann tæpti aðeins á hér áðan að stæðu yfir milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og garðyrkjubænda, hvort þess væri að vænta að niðurstaða kæmi í þær viðræður og á hvaða nótum verið sé að ræða, hvað sé verið að tala um til þess að greiða fyrir því að samkomulag geti náðst á milli ríkisins og garðyrkjubænda í þessum efnum.