137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá skýringu sem fram kom frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni á því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra gat ekki verið við umræðuna. Ég tel að það sé mikilvægt þegar svona kemur upp eins og í dag að slíkum skilaboðum með viðeigandi skýringum sé komið til þingflokkanna þannig að menn geti gert sér grein fyrir hvað veldur töf. En ég vil líka ítreka það og benda á að þessi umræða, sem ég tel vera mjög mikilvæga, um fjárhagsstöðu heimilanna í landinu og viðbrögð við þeim vanda sem nú er uppi og hefur verið að magnast með hverri viku sem líður, mun að öllum líkindum frestast fram yfir helgi og fram í næstu viku þannig að það er ekki víst hvenær hún getur farið fram. Það er nokkuð síðan beðið var um þessa umræðu. Ef ég man rétt kom umræðubeiðnin fram í þar síðustu viku þannig að umræðan hefur að mínu mati dregist úr hófi fram, sérstaklega í ljósi mikilvægis þess efnis sem hér á að ræða.