137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[13:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við búum við þá staðreynd, sem er nöpur, að einn stærsti launagreiðandi landsins á Íslandi í dag er Atvinnuleysistryggingasjóður. 16–17 þús. Íslendingar hafa ekki atvinnu. Atvinnuleysið er um 9% og atvinnuleysi er eitt mesta böl sem sérhver maður getur lent í. Það er því mikilvægt að snúa ofan af þessari þróun sem er svo óheillavænleg.

Gefum okkur að Atvinnuleysistryggingasjóður þurfi á ári hverju að greiða um 20 milljarða til þess að greiða 17.000 einstaklingum atvinnuleysisbætur. Ef þessir sömu einstaklingar hefðu atvinnu væru þeir trúlega að borga svipaða upphæð í formi skatta til ríkisins. Þannig að umsnúningurinn í rekstri hins opinbera, að horfa upp á 17.000 Íslendinga ganga atvinnulausa, hljóðar jafnvel upp á 40 milljarða kr. Það skýtur stoðum undir þann málflutning sem margir hafa haft uppi á Alþingi Íslendinga, þ.e. um róttækar aðgerðir til þess að koma atvinnulífinu af stað að nýju, fjölga störfum í samfélaginu þannig að ekki þurfi eins margir Íslendingar að leita á náðir Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra að því hver staða Atvinnuleysistryggingasjóðs sé í dag. Hvenær má gera ráð fyrir því að hann verði mergsoginn, þ.e. að engir fjármunir verði lengur til? Hvenær má gera ráð fyrir að við þurfum að fara að veita af fjárlögum inn í þennan sjóð? Ég held að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað er fram undan á næstu mánuðum. Það er gríðarlegur kostnaður við að horfa upp á þetta atvinnuleysi. Margfeldisáhrifin eru gríðarleg og við þurfum að ráðast í mjög róttækar breytingar og aðgerðir til þess að snúa þessari óheillaþróun við. Þar dugir aðgerðarleysið eitt og sér ekki til.

Um leið og ég spyr hæstv. ráðherra um stöðu þessa sjóðs, og hvað hann sjái fyrir sér að við þurfum að setja inn í hann á þessu ári, væri gott að heyra hvað hæstv. ráðherra er að gera í þeim efnum að örva vinnumarkaðinn. Að öllu óbreyttu blasir hörmungarástand við, við þurfum að ráðast í einhverjar alvöruaðgerðir. Þetta kostar þjóðfélagið gríðarlega háa fjármuni, eitthvað sem við höfum ekki þurft að horfast í augu við í mörg herrans ár.