137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra ummæli hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þegar hann sagði, með leyfi forseta, efnislega að það væri of mikil svartsýni í atvinnulífinu og menn þyrftu að hafa hugrekki til að ráða fleira fólk. Ég vil nota tækifærið og benda hæstv. ráðherra á að ástæðan fyrir því að það er atvinnuleysi á Íslandi og ástæðan fyrir því að fyrirtækin ráða ekki fólk er fyrst og fremst sú að dregist hefur úr hömlu að koma saman bankakerfinu sem gæti síðan lánað þessum fyrirtækjum peninga þannig að hægt sé að fara í nýsköpun, að hægt sé að fara í mannaráðningar. Það hefur dregist úr hófi fram að leggja fyrir þingið greinargott og marktækt yfirlit um það til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggist grípa í ríkisfjármálum. Það hefur valdið því m.a. að gengið hefur hægar að lækka stýrivexti Seðlabankans sem aftur gerir það að verkum að það eru drápsklyfjar á íslensku efnahagslífi í formi allt of hárra vaxta. Þessir þættir, hæstv. trygginga- og félagsmálaráðherra, valda því að fyrirtækin geta ekki ráðið fólk, ekki skortur á hugrekki. Því það eina sem kannski er eftir í þessu er hugrekki þeirra sem eru þó að berjast.