137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

séreignarlífeyrissparnaður.

28. mál
[14:20]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það mál sem hér er rætt lét ég töluvert til mín taka í umræðum á síðasta þingi, þ.e. útgreiðsla séreignarsparnaðar. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér sýnist að nokkuð vel hafi tekist til með þessa framkvæmd. Það eru töluvert færri sem nýta sér þessa heimild en gert var ráð fyrir. Ef ég man rétt var í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu gert ráð fyrir að þetta gæti numið allt að 50 milljörðum. Núna upplýsir hæstv. fjármálaráðherra að hér sé um 17 milljarða að ræða og ríflega 27 þúsund einstaklingar sem hafa nýtt sér þetta. Þá er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir höfðu mikinn fyrirvara á þessu máli vegna þess að þeir óttuðust að það væri mikið áhlaup, ef svo má að orði komast, á sjóðina. Mér finnst hins vegar, í ljósi þeirra talna sem hæstv. ráðherra er að upplýsa, að full ástæða sé til að endurskoða útgreiðslu í framtíðinni og hugsanlega að rýmka frekar á næstu dögum, vikum og jafnvel mánuðum. Það er alveg ljóst að það eru þó nokkrir einstaklingar sem þurfa á þessum peningum að halda. Ég talaði (Forseti hringir.) fyrir því á sínum tíma að þessi heimild væri rýmri og finnst mér full ástæða til að beina því til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að þetta verði skoðað enn frekar með rýmkun í huga.