137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:30]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn um framtíðarskipan mála á Hólum. Meginniðurstaða þeirrar nefndar sem þingmaðurinn vísar hér til, um framtíðarskipun Hólaskóla, var í raun sú að fjárhagsstaðan yrði leiðrétt og fjárhagsgrundvöllurinn tryggður, að fjárveitingin fyrir fjárlagaárið 2009 tæki mið af mati ráðuneytisins á fjárþörf skólans miðað við þá starfsemi sem þar fer fram. Enn fremur að skoðaðir yrðu möguleikar á að breyta skólanum eða stofnuninni í sjálfseignarstofnun með þátttöku sveitarfélagsins, að háskólastarfsemi yrði aðgreind frá staðarhaldi á Hólum og almenn málefni Hóla í Hjaltadal mundu heyra undir forsætisráðuneytið.

Þessi skýrsla var lögð fram og segja má að enn hafi kannski ekki verið tekin formleg afstaða til allra tillagna sem þar koma fram. Að mínu viti hefur verið mikilvægast að koma rekstrinum á Hólaskóla í jafnvægi og í því augnamiði hafa verið settar aukafjárveitingar inn í reksturinn. Þann 1. janúar 2009 var settur sérstakur tilsjónarmaður með rekstri Hólaskóla sem var ætlað að setja fram tillögur til að draga úr útgjöldum skólans og til að tryggja að rekstraráætlun skólans yrði í samræmi við markmið fjárlaga 2009 og í samræmi við endurskoðaða rekstraráætlun. Samþykkt var 170 millj. kr. aukafjárveiting til skólans en eðlilega var ekki unnt að verða við tillögum nefndarinnar um 115 millj. kr. hækkun á fjárlögum 2009.

Enn fremur hefur verið rætt við aðila á svæðinu, þar á meðal sveitarstjórn, um sameiginlega lendingu í málum er varða Hólaskóla og enn eru ákveðin óvissuatriði tengd staðnum, svo sem eignum og jarðnæði sem ekki koma einungis til kasta sveitarfélagsins heldur líka þjóðkirkjunnar sem þar kemur að málum.

En rekstrarvandanum þarf að taka á og því var í minni tíð settur á sérstakur samstarfshópur fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, því að Hólaskóli, eins og reyndar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, lýtur öðrum lögmálum um fjárveitingar en aðrir háskólar. Hann þiggur ekki fé samkvæmt hinu hefðbundna reiknilíkani sem háskólarnir fá fé samkvæmt heldur fær hann fasta fjárveitingu frá menntamálaráðuneyti og frá landbúnaðarráðuneyti. Okkur þótti mikilvægt að þessi ráðuneyti kæmu saman að þessu máli til þess að ræða framtíð þessara tveggja landbúnaðarskóla.

Niðurstöður þess hóps hafa ekki enn verið kynntar formlega en þær liggja nýverið fyrir. En það er mjög mikilvægt, eins og ég nefndi hér áðan, að þar komi að fulltrúar ráðuneytanna, sveitarstjórnar og þjóðkirkju sem fari yfir og skýri verkaskiptingu á Hólum. Það er mjög mikilvægt að skuldastöðunni verði komið á hreint sem fyrst og síðan verði mörkuð ákveðin stefna í kjarnastarfi skólans. Það er alveg ljóst að þarna er unnið mjög gott starf og á mjög ólíkum sviðum sem þarf að styrkja. Við þurfum sérstaklega að skoða fyrirkomulag fasteigna á staðnum og hvaða fyrirkomulag eigi að hafa þar. Það má t.d. líta á Hvanneyri sem fyrirmynd í þeim efnum. Síðast en ekki síst þarf að skoða þessi mál með tilliti til þeirrar gríðarlegu þýðingar sem Hólaskóli hefur fyrir sitt byggðarlag, en ekki síst hvaða innlegg hann hefur haft í háskólastarfsemi á landinu.

Þetta tengist þeim tillögum sem nú hafa verið lagðar fram, bæði frá innlendum og erlendum sérfræðingum, um framtíð háskólastarfsemi í landinu. Þar er verið að leggja til sameiningar háskóla og tillögur nefndarinnar á sínum tíma þarf að skoða í samhengi við þær nýju tillögur sem nú eru komnar fram, annars vegar frá finnsku sérfræðinganefndinni og OECD-sérfræðingunum og hins vegar frá innlendu sérfræðinganefndinni sem nýverið skilaði af sér.

Í stuttu máli sagt liggja fyrir ákveðnar tillögur um hvernig koma megi rekstrinum í lag á Hólum og að því loknu þarf að skoða aðskilnað skólahalds og annarrar umsýslu á Hólastað. Í þriðja lagi þarf að líta á það hvaða hlutverki Hólaskóli mun gegna í hinu íslenska háskólasamfélagi út frá þeirri endurskipulagningu sem þar er fyrir dyrum.