137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu. Ég held að það verði seint undirstrikað nógu sterklega að við erum hér að tala um gríðarlega mikilvæga stofnun fyrir héraðið og líka fyrir háskólastigið í landinu með þeirri sérstöðu sem Hólaskóli hefur.

Mig langar þó að færa inn í umræðuna — ég held að ráðherra hafi sett þetta í ágætan farveg, við sjáum vonandi fram á viðeigandi lausn. En það er gríðarlega mikilvægt að nokkuð hratt verði unnið og þeirri óvissu eytt sem ríkt hefur um Hólaskóla í langan tíma.

Við verðum að horfast í augu við að gríðarleg mistök voru gerð þegar landbúnaðarráðherra færði skólann yfir til menntamálaráðuneytisins án þess að gera skuldir skólans upp. Það voru mikil vonbrigði þegar ég kom að Hólastarfshópnum að átta mig á því að þessar 170 millj. kr. voru ekki einungis þær heldur voru 120 millj. kr. inni í fjármálaráðuneytinu, gömul skuld vegna launa, sem ekki hafði komið upp á borðið í þeirri umfjöllun — og segir okkur náttúrlega heilmikið um það að við þurfum að vanda okkur betur í slíkri umfjöllun. (Forseti hringir.) Þar voru mistökin gerð. Við áttum auðvitað að vera búin að hreinsa þessar skuldir af þessum skóla á þeim tíma. En við skulum treysta (Forseti hringir.) á að nú vinnist vel úr og Hólaskóli lifi sem öflug skólastofnun.