137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.

23. mál
[14:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni kærlega fyrir þessa fyrirspurn og þann stuðning sem hann sýnir nýsköpunarsjóðnum og ekki síður hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það hve skjótt þær brugðust við með þessari aukafjárveitingu. Hún er umtalsverð eins og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á í ljósi þess að fjárveitingarnar hafa verið í tiltölulega stöðugu formi síðan 1992.

Það er rétt að rifja það upp að þessi sjóður verður til við svipaðar aðstæður og núna eru þegar skyndilegt fjöldaatvinnuleysi kemur upp í samfélaginu, reyndar mun minna en við væntanlega horfum fram á núna. Það er full ástæða til að skoða það með þennan sjóð, af því að það er rétt að hafa í huga að það lætur nærri að 95% af þeim fjármunum sem koma í sjóðinn fari beint út í laun til námsmanna, að yfirbyggingin er afar lítil og hægt er að bregðast mjög hratt við atvinnuástandi eins og hér er með auknum framlögum í sjóðinn.