137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[15:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum Eygló Harðardóttur og Bjarkey Gunnarsdóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu.

Mér sýnist einfaldlega að þær fyrirætlanir sem síðasta ríkisstjórn beitti sér m.a. fyrir með fulltingi Framsóknarflokksins og allra flokka á þingi séu að ganga eftir og hér er um góða hluti að ræða miðað við svör hæstv. ráðherra. Það er því ekki allt alslæmt. Okkur framsóknarmönnum er legið á hálsi fyrir að gagnrýna ríkisstjórnina mikið hér í þinginu en það hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkjandi stjórnvöldum aðhald og við munum gera það. En ég mun ekki verða feiminn við að hæla ef mér finnast hlutirnir vel gerðir og mér sýnist að hér hafi ágætlega verið staðið að málum og vil bara lýsa yfir mikilli ánægju með það. Ég bendi enn og aftur á að kennarar í þessum háskólum hafa lagt fram mjög mikilvægt framlag til að af þessum áformum geti orðið og það er ánægjulegt að vita að um 2.100 námsmenn muni nýta tímann í sumar í háskólum landsins til að sækja sér aukna þekkingu. Ég las þannig úr orðum hæstv. ráðherra að hún hygðist beita sér í því að koma á einhverri samræmingu milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og lánasjóðsins til að sníða af þann galla sem blasir við okkur og við höfum rætt hér.

Það er hárrétt sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir nefndi að við höfum einblínt mjög mikið á háskólanemana en það má ekki gleyma því unga fólki sem stundar nám í framhaldsskólum landsins. Ég tel að við þurfum á sumarþinginu að veita því meiri athygli hver staða þess hóps er. Það er greinilega búið að koma að miklu leyti til móts við vanda háskólastúdenta, þ.e. þeirra sem hafa viljað stunda nám í sumar, en ég velti fyrir mér stöðu framhaldsskólanemanna almennt og hvort við þurfum ekki (Forseti hringir.) á vettvangi þingsins að kanna mjög ítarlega hver staða þess þjóðfélagshóps er. En enn og aftur þakka ég fyrir góð svör.