137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margsinnis komið fram af minni hálfu að ég skipti mér ekki af störfum þingsins. Ég legg fram þessa tillögu sem utanríkisráðherra og þegar málið er komið til þingsins er það þingið sem ræður framvindu málsins og ég hef aldrei reynt að grípa inn í það. Mín skoðun er sú að þingið eigi að fjalla um þetta mál eins og öll önnur af natni og vandvirkni.

Ég er þeirrar skoðunar að jafnviðamikið mál og umsókn um aðild að Evrópusambandinu þurfi mjög nákvæman og ítarlegan og vandaðan undirbúning. Það er þess vegna sem það er algjörlega skýr og klár afstaða mín að ég vil hafa sem nánast samráð við þingið um það. Ég vil hlusta á með hvaða hætti þingið vill að framkvæmdarvaldið framkvæmi þá tillögu sem hér liggur fyrir, verði hún samþykkt, eða aðra tillögu sem kann að vera samþykkt. Ég get ekki sagt til um það.

En það er alveg ljóst af minni hálfu að samráð er númer eitt, tvö og þrjú við þingið og við öll þau hagsmunasamtök sem með einhverjum hætti telja (Forseti hringir.) sig eiga hagsmuni að verja sem tengjast þessu máli.