137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson þekkir mig og hann þekkir mitt skaplyndi og blíðlyndi. Hann veit að ég svíð engan mann og ég hef ekkert sviðið út úr Vinstri grænum eða samstarfsmönnum mínum í ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Það liggur alveg ljóst fyrir að í langflestum flokkum eru skiptar skoðanir á þessu máli. Það er ekkert flóknara en svo. Hv. þingmaður veit að hans eigin flokkur er klofinn niður í rót í málinu þó að ég vilji hjálpa honum til að reyna að græða þau sár.

Hv. þingmaður spyr síðan hvaða samning ég muni vilja samþykkja eða ekki. Menn semja ekki fyrir fram. Menn ganga til samninga af harðfylgi, menn verja og sækja á grundvelli þeirra hagsmuna sem þeir skilgreina fyrir fram og síðan vega þeir og meta allt sem út úr því kemur: Er það gott fyrir íslenska þjóð? Er það slæmt fyrir íslenska þjóð? Ég skal taka þátt í slíkri ákvörðun þegar að því kemur en ekki fyrr en ég og hv. þingmaður og hugsanlega fleiri erum búnir að taka höndum saman um það að verja og sækja fyrir Ísland á þessum vettvangi.