137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir heldur jákvæðar undirtektir. Ég hef auðvitað grandskoðað það plagg sem Framsóknarflokkurinn samþykkti fyrr á árinu og eins og ég hef sagt er ég eiginlega sammála öllum þeim skilyrðum sem svo eru kölluð varðandi það að ganga til þessara viðræðna. Ég held að á þeim grundvelli gæti ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn auðveldlega náð niðurstöðu og samvinnu.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns þá er það ekki hlutverk mitt að setja á eða fella ríkisstjórnir í ræðustól Alþingis, ég hef einfaldlega ekki vald til þess. Ég er bara ráðherra á plani.

Varðandi síðari spurninguna þá skal ég svara alveg hreinskilnislega. Það væri sterkara fyrir samningsstöðu Íslendinga ef hægt væri að ná grundvallarsamstöðu í þinginu um þetta mál, (Forseti hringir.) það mundi skipta máli. Þess vegna eigum við að freista þess að gera allt sem við getum til að ná slíkri samstöðu.