137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að við erum í miklu samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn. Ég misskil e.t.v. spurningu hv. þingmanns en ég tel að sú staðreynd að við erum í því samstarfi geri ekki annað að verkum en það að leiðin er styttri, eins og hv. þingmaður sagði. Það er um færri atriði að semja í viðræðum við Evrópusambandið. Vera okkar á því svæði, Evrópska efnahagssvæðinu, gerir í sjálfu sér ekkert fyrir okkur í viðræðunum og undirbýr okkur ekkert sérstaklega undir viðræður um t.d. sjávarútvegsmálin.

Ég vænti þess að hv. þingmaður komi upp í dag og geri grein fyrir því hvað er sérstaklega eftirsóknarvert fyrir okkur Íslendinga umfram það sem við höfum á grundvelli EES-samningsins. Mér hefur þótt það einkenna þann rökstuðning sem flestir þingmenn færa að þetta snúist þegar upp er staðið bara um gjaldmiðilinn.