137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum ósammála um kjarna þess máls sem hér er verið að ræða. Kjarni málsins er að farið er fram á það við þingið að afgreiða málið án þess að ríkisstjórnin geri grein fyrir þeim hagsmunum sem hún ætlar að verja, án þess að ljóst sé hver aðkoma þingsins á meðan á viðræðunum stendur skuli vera, án þess að fyrir liggi hvaða kostnaður hlýst af aðildarviðræðunum, án þess að gerð sé grein fyrir því hvaða stjórnarskrárbreytingar séu nauðsynlegar og hvenær þær eigi að eiga sér stað.

Hagsmunaaðilum — ekki þinginu, nei, hagsmunaaðilum úti í bæ — verður falið að skilgreina samningsmarkmiðin og á þessum grundvelli á ráðherra Samfylkingarinnar, sem hefur nota bene engar athugasemdir við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, að fá umboð til að ganga til viðræðna og ljúka samningi við Evrópusambandið. Sá er kjarni þessa máls. (Forseti hringir.)