137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur séu að leggja það til með þingsályktunartillögu sinni að sótt verði um aðild. Ég hvet hann til að lesa tillöguna.

Auðvitað er hv. þingmanni ekki alvara þegar hann segir að hér liggi fyrir vönduð tillaga. Auðvitað er honum heldur ekki alvara þegar hann segir að í þessari tillögu séu skilgreindir skilmerkilega allir þeir grundvallarhagsmunir sem við þurfum að verja í viðræðunum. Eða er hv. þingmaður að segja að þá grundvallarhagsmuni sé hægt að tilgreina í 6–8 setningum eins og gert er í þessu skjali? Er hv. þingmaður að segja að allt talið um samráðið við hagsmunaaðilana og sú vandaða málsmeðferð sem á að fara fram á þinginu muni fæða af sér 5–6 stuttar setningar um þá hagsmuni sem þurfi að verja og þau sjónarmið sem þurfi að gæta að í viðræðum við Evrópusambandið? Auðvitað er hv. þingmanni ekki alvara með þessum málflutningi.