137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram og mælt fyrir um um að Alþingi feli ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Tillagan er í sjálfu sér einföld í sniðum en hún varðar hins vegar ríka þjóðarhagsmuni. Tengsl okkar við Evrópusambandið vekja blendnar tilfinningar í hjörtum Íslendinga og því er afar mikilvægt að umræður um og vinnan við þetta þingmál verði yfirveguð og vönduð í alla staði og mun ég koma nánar inn á það síðar.

Í athugasemdum við tillöguna eru reifuð ýmis sjónarmið sem hafa ber í huga og þar kemur fram að tillögunni sé ætlað að tryggja að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að sambandinu. Enn fremur er þar undirstrikað að umsókn jafngildi ekki aðild og skýr fyrirvari er gerður þar sem málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum ef og þegar þar að kemur.

Það dylst engum að hér eru ríkir hagsmunir í húfi fyrir íslenska þjóð, hagsmunir sem sumir hverjir tala fyrir aðild að Evrópusambandinu og aðrir sem vega gegn henni. Öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast þessu máli.

Meðal grundvallarhagsmuna sem tíundaðar eru í athugasemdum eru:

Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.

Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.

Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis.

Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum

Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.

Að ná fram hagstæðu og vaxtarhvetjandi samkeppnis- og starfsumhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi um leið og sérstöðu vegna sérstakra aðstæðna er gætt.

Öll þessi atriði skipta verulegu máli fyrir okkur Íslendinga og er hér þó ekki um tæmandi upptalningu að ræða. Verði þessi tillaga samþykkt tel ég einboðið að af Íslands hálfu verði hagsmunir og markmið okkar skilgreind frekar af hálfu stjórnvalda í nánu og víðtæku samráði við hagsmunaaðila og að sjálfsögðu við Alþingi.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft í þingsályktunartillögu tveggja stjórnarandstöðuflokka að utanríkismálanefnd hafi umsjón með því starfi og að mínu viti er sjálfsagt að skoða þann möguleika þótt ég hallist frekar á þá sveif að það eigi að kjósa sérnefnd um Evrópumál eins og ég kem að síðar.

Undanfarin 15 ár hefur Ísland verið aðili að samningum um hið Evrópska efnahagssvæði í gegnum aðild okkar að EFTA. Á þann hátt höfum við nú þegar fullgilt marga veigamikla þætti í gildandi sáttmálum, löggjöf og stefnumiðum Evrópusambandsins. Af þeim sökum eru þau sjónarmið hávær að nú sé einungis lokahnykkurinn eftir, full aðild að sambandinu.

Enda þótt margir málaflokkar falli undir EES-samninginn má ekki gleymast að mjög þýðingarmiklir hlutar standa þar fyrir utan, svo sem sjávarútvegur og landbúnaður, skatta- og tollamál og ríkisfjármál, efnahags- og myntsamstarf, dómsmál, byggðamál og utanríkis- og öryggismál. Allt eru þetta afar umfangsmikil málasvið og aðild að Evrópusambandinu þýðir stóraukið framsal á innlendu valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Um það verður varla deilt. Hitt er meira álitamál hvort ávinningurinn af aðild sé slíkur að hann vegi upp eða réttlæti yfirleitt slíkt valdaframsal.

Vissulega er bent á að aðildarríki Evrópusambandsins eru nú orðin 27 og ekkert þeirra mun telja sig ósjálfstætt eða ófullvalda ríki vegna aðildarinnar. Ákvörðun af þessum toga er hins vegar þess eðlis að hana getur einungis þjóðin sjálf tekið. Og hún á að taka hana.

Á undanförnum árum hafa margar nefndir og starfshópar unnið að Evrópumálum á vegum margra ríkisstjórna, á vegum stjórnmálaflokkanna, hagsmunaaðila o.s.frv. Þannig liggur fyrir mikil undirbúningsvinna og upplýsingasöfnun sem sjálfsagt er og eðlilegt að nýta í þeirri vinnu sem fram undan er. Það er einnig brýnt að mínu mati að umræðan um þessi mál verði ekki einskorðuð við hið pólitíska umhverfi heldur nái vítt og breitt um samfélagið.

Stjórnmálaflokkarnir hafa mótað afstöðu sína til aðildar að Evrópusambandinu á landsfundum og flokksþingum, m.a. fyrr á þessu ári. Það er öllum ljóst að skoðanir um málið eru afar skiptar í flestum flokkum og kjósendahópnum. Afstaða fólk breytist frá einum tíma til annars og að sjálfsögðu geta ytri aðstæður eins og staða efnahagsmála haft sitt að segja um þróunina í skoðanakönnunum.

Um nokkurt skeið hefur sú staða verið uppi að meiri hluti landsmanna virðist vilja að farið verði í aðildarviðræður á sama tíma og meiri hlutinn virðist jafnframt andvígur aðild. Þessi staðreynd á sér samsvörun í því sem segir í athugasemd með tillögunni, nefnilega að í aðildarumsókn felist ekki nauðsynlega jákvæð afstaða til aðildarinnar sjálfrar. Afstaðan til hennar ræðst af mörgum ólíkum þáttum sem margir hverjir eru ekki fyrirséðir fyrr en á hólminn er komið.

Á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur farið fram talsverð umræða um Evrópumálin og á vegum flokksins hafa verið haldnir margir fundir þar sem þau mál hafa verið skoðuð frá ólíkum hliðum. Stefna flokksins gagnvart aðild að sambandinu var mótuð strax í upphafi og hún hefur ekki breyst þann áratug sem flokkurinn hefur starfað. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins. Stefna hins stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, hefur á hinn bóginn verið sú að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Þetta er öllum kunnugt.

En þrátt fyrir andstöðu VG við aðild að Evrópusambandinu telur flokkurinn að þjóðin sjálf eigi að ráða örlögum sínum í þessu þýðingarmikla máli. Á landsfundi flokksins í mars sl. var samþykkt ályktun þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þannig lagði landsfundurinn áherslu á þrennt, í fyrsta lagi andstöðu flokksins við aðild að ESB, í öðru lagi mikilvægi opinnar og lýðræðislegrar umræðu um málið og í þriðja lagi að þjóðin sjálf leiddi málið til lykta.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir er að sjálfsögðu málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða stjórnarflokkanna til málsins. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því og það vita allir. Tillagan var einnig kynnt stjórnarandstöðuflokkunum sem höfðu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. En þótt afstaða stjórnarflokkanna til aðildar sé ólík hafa þeir verið sammála um að vísa endanlegri ákvörðun í málinu til þjóðarinnar og aðrir flokkar hafa einnig ályktað um það með sama hætti. Sú tillaga sem stjórnarandstöðuflokkarnir Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa hér lagt fram í dag virðist mér ganga út á hið sama.

Á þessum grunni byggir sú tillaga sem hér er á dagskrá í dag. Um leið heldur hún til haga þeim þremur meginatriðum sem landsfundur VG samþykkti í málinu. Hún kveður á um þjóðaratkvæðagreiðslu, opna og lýðræðislega umræðu og upplýsingagjöf og að málsaðilar — þar með talið einstakir stjórnmálaflokkar þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins var að spyrja hverjir þessir málsaðilar gætu verið — geti lagst gegn málinu þegar kemur að ákvörðun um aðild eða ekki aðild. Sá áskilnaður á vitanlega við um báða stjórnarflokkana og sama máli hlýtur að gegna um stjórnarandstöðuna.

Það er beinlínis villandi og hálfsannleikur sem haldið er fram, reyndar í leiðara eins dagblaðanna í morgun, að aðeins annar stjórnarflokkurinn áskilji sér rétt til að leggjast gegn samningi um aðild að ESB. Enginn stjórnmálaflokkur getur fyrir fram lýst yfir skilmálalausum stuðningi við Evrópusambandsaðild. Þvert á móti hljóta allir flokkar að heita þjóðinni því óháð því í hvaða farveg þetta mál fer að halda utan um hagsmuni íslensku þjóðarinnar og íslensks samfélags og taka endanlega afstöðu til aðildarsamnings þegar fyrir liggur hvernig hann þjónar heildarhagsmunum Íslands.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna er með sama hætti fjallað um fyrirvarana en þar segir m.a. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna.“

Þetta er skýrt. Sú nálgun sem stjórnarflokkarnir hafa á þetta mál er um margt nýlunda í íslenskum stjórnmálum. Einhverjum kann að þykja sérkennilegt að samstarfsflokkar í ríkisstjórn skrifi sérstaklega um það í samstarfsyfirlýsingu sem þeir eru ósammála um en um leið er verið að styrkja þingræðið og lýðræðið í sessi.

Þingið mun fjalla um og taka afstöðu til tillögunnar og verði hún samþykkt fer af stað ferli sem væntanlega endar í aðildarsamningi sem þjóðin mun taka af skarið um. Nú þegar hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir þessari tillögu er hún komin í hendur Alþingis sem hefur það í hendi sér hver örlög hennar verða.

Ég vil ekki draga fjöður yfir það að innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru skiptar skoðanir um þessa leið. Margir innan okkar raða eru alfarið andvígir því að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu á meðan aðrir telja að það sé rétt leið til að koma málinu í hendur þjóðarinnar. Bæði sjónarmiðin eiga rétt á sér og eiga að njóta virðingar og sannmælis og einstakir þingmenn flokksins áskilja sér að sjálfsögðu allan rétt til að greiða atkvæði um tillöguna eins og samviska þeirra býður þeim. Vonandi mun það reyndar eiga við um þingheim allan.

Forseti. Þegar þessari umræðu lýkur verður tillögunni að öllum líkindum vísað til utanríkismálanefndar til meðferðar. Sem formaður nefndarinnar mun ég kappkosta að ná sem breiðastri samstöðu um verklag og vinnu í nefndinni um málið. Ég tel afar brýnt að sem flestum verði gert kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina og að nefndin hafi tækifæri til að vinna vandlega úr umsögnum og skiptast á skoðunum og viðhorfum. Það mun ekki standa á mér að leita leiða til að sem flestir geti orðið samferða um afgreiðslu málsins þótt auðvitað sé ekki enn tímabært að fara frekar út í það. Fyrst verður nefndin að sjálfsögðu að fá málið til umfjöllunar og skoða umsagnir, ræða mismunandi leiðir og útfærslur, þar með talið kostnaðarmat sem hér var kallað eftir af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins.

Í athugasemdum með tillögunni er vikið að því að stefnt skuli að því að setja á laggirnar sérstaka Evrópunefnd þingsins með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB. Utanríkismálanefnd mun þurfa að taka afstöðu til þessa og þá jafnframt að skilgreina hlutverk og ábyrgðarsvið þeirrar nefndar og hvernig hún muni starfa.

Sjálfur tel ég einboðið að Evrópunefnd sem Alþingi kýs hafi víðtækt umboð, gegni mikilvægu hlutverki við skilgreiningu á samningsmarkmiðum og grundvallarhagsmunum og fylgist grannt með viðræðum, jafnvel þannig að nefndin hafi eða geti haft beina aðkomu að viðræðuferlinu sjálfu. Evrópunefnd á að mínu viti einnig að tryggja jafna og markvissa kynningu og upplýsingagjöf til þings og þjóðar í samvinnu við hagsmunaaðila og félagasamtök, ekki síst þeirra sem annars vegar styðja aðild Íslands að Evrópusambandinu og hins vegar þeirra sem mæla gegn inngöngu Íslands í sambandið.

Við Íslendingar glímum nú við margvíslega erfiðleika og á slíkum tímum er hætt við að margir leiti að einföldum og skjótvirkum lausnum. Þær eru því miður ekki til. Við munum á næstu vikum og mánuðum þurfa að taka þungbærar en óhjákvæmilegar ákvarðanir í því augnamiði að vinna okkur í gegnum efnahagsófarirnar og afleiðingar hagstjórnarmistaka undanfarinna margra ára.

Það eru stóru verkefnin í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir og það er einkar brýnt að þjóðin standi saman við þær kringumstæður. Einmitt á þeim tímum er knýjandi hlutverk forustumanna í stjórnmálum að vinna að slíkri samheldni meðal þjóðarinnar og þá fyrst reynir á úr hverju menn eru gerðir.

Nú ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna í þingsetningarræðu í vor. Samheldnin var forseta Íslands hugleikin við setningu Alþingis en þá vék hann að umræðu um Evrópusambandið og minnti m.a. á þann klofning meðal þjóðarinnar sem ágreiningur um tengsl okkar við önnur ríki orsakaði á sínum tíma og hvatti til þess að öll meðferð málsins nú yrði með þeim hætti að sem flestir yrðu sáttir. Síðan sagði forsetinn, með leyfi forseta:

„Rökin bæði með og á móti eru svo efnisrík að sérhverjum ber að virða málflutning hinna, gæta hófs, viðurkenna að málið snertir svo sögu, sjálfsvitund og framtíðarsýn Íslendinga að strengir röksemda og heitra kennda munu ætíð hljóma í senn.

Við þurfum öll að hafa í huga, hvaða stöðu sem við gegnum eða hver sem afstaðan er til aðildar, að í þessum efnum er það þjóðin sem ræður. Okkar skylda er fyrst og fremst að búa málið vel í hennar dóm, að forðast eftir fremsta megni að úrslitin skilji eftir djúpstæða gjá.“

Ég tel einmitt, frú forseti, mikilvægt að við stöndum með þessum hætti að þessu máli sem hér er til umfjöllunar. Það mál sem við erum að ræða hér í dag snýst ekki síst um það hvort við höfum til að bera lýðræðislegan þroska til að takast á við þetta viðfangsefni og sættast á þá niðurstöðu sem þingræðið og lýðræðið leiðir til. Þar er enginn undanskilinn.