137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu nema öll ræðan var í núinu. Það er nútíðin sem menn fjalla um og ekkert annað. Hann fjallaði ekkert um framtíðina svo að ég tali ekki um fjarlæga framtíð. Þá er ég að tala um 50 eða 100 ár, eins og ég hef nefnt áður.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann Ísland inni í Evrópusambandinu eftir 50 eða 100 ár? Hann var heldur ekki á móti. Hann kom heldur ekki með beina afstöðu gegn því að ganga inn í Evrópusambandið. Ábyrgð hv. þingmanna Vinstri grænna er mjög mikil á því að veita þessu máli brautargengi á Alþingi. Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef hann kaupir hús og búnar eru til væntingar um að hann geti flutt inn í húsið en síðan kemur í ljós þegar hann á að fara að kaupa húsið að hann á að borga fullt verð. Hann eignast það ekki, hann leigir það bara. Hvernig mundi hv. þingmaður taka afstöðu í slíku dæmi? Hann er jú fluttur inn og hvað ætlar hann að gera?