137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun ekki taka þátt í samjöfnuði þingmannsins á því að kaupa hús annars vegar og ganga í Evrópusambandið hins vegar. Mér finnst þessi samlíking ekki gáfuleg. Það sem ég vil segja um það sem þingmaðurinn kom inn á þegar hann ræddi um framtíðina og spurði hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér — hann gerir athugasemd við að ræða mín hafi fyrst og fremst verið í núinu — vil ég eingöngu segja þetta: Við erum að ræða um hvort Alþingi ætlar að veita ríkisstjórninni umboð til þess að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um aðild á tilteknum forsendum og að láta síðan ákvörðun þar að lútandi vera í höndum íslensku þjóðarinnar. Það er sú framtíðarsýn sem ég hef, að þjóðin sjálf taki ákvörðun um það hver örlög hennar verða í þessu máli í núinu og til framtíðar.