137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessari spurningu má að sjálfsögðu snúa upp á fyrirspyrjanda sjálfan. (Gripið fram í.) Eftir því sem ég hef lesið í þeirri tillögu sem dreift var í morgun — ég hef ekki lesið hana mjög vandlega því að hún barst hingað rétt þegar þessi fundur var að hefjast — virðist mér hún bera í sér að stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, leggi til að undirbúin verði umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er heiti tillögunnar, „Undirbúningur umsóknar um aðild að Evrópusambandinu“. (Gripið fram í.) Þess vegna finnst mér í raun að ekki sé ýkja mikill munur á því sem hér er verið að leggja til — hér kemur nýtt eintak, prentað upp. Það er ekki nema von að menn hafi ekki áttað sig á því hvað þeir voru komnir í.

Ég tel að komi þessi tillaga til umræðu og verði vísað til utanríkismálanefndar muni hún fá efnislega meðferð. Ég hef sagt: Ég vil gjarnan vinna að sem breiðastri samstöðu. (Forseti hringir.) Þau sjónarmið (Gripið fram í.) sem koma fram í tillögu stjórnarandstöðuflokkanna verða að sjálfsögðu (Gripið fram í.) tekin til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar (Gripið fram í.) og fá þar vandaða og málefnalega umfjöllun, frú forseti. (Gripið fram í.)