137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel skynsamlegt að Alþingi marki stefnu í þessu máli, taki ákvörðun um hvort það vill að farið verði í viðræður við Evrópusambandið eða ekki. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu, verði það niðurstaða Alþingis að fara eigi í viðræður við Evrópusambandið, er mjög mikilvægt að við skilgreinum vel samningsmarkmið okkar fyrir viðræðurnar á ýmsum sviðum, eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Víðtækt samráð verður haft við hagsmunaaðila um samningsmarkmið fyrir viðræðurnar á ýmsum sviðum, svo sem sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamála, á sviði almannaþjónustu, umhverfis- og jafnréttismála og gjaldmiðilsmála, og leitast við að ná sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll viðræðnanna.“

Ég tel að það sé skynsamlegt að standa að málum með þessum hætti. Alþingi taki ákvörðun um það hvort það telur rétt að leggja af stað í þennan leiðangur. Verði það niðurstaðan förum við í frekari vinnu við að skapa sem allra breiðasta samstöðu og sátt um þau markmið sem við viljum setja okkur (Forseti hringir.) í þeim viðræðum sem fram undan yrðu þá.