137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig hafa svarað þessu með tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég hef lýst því sjálfur að það er leið sem ég tel að gjarnan hefði mátt skoða. Ég hef aldrei lýst því yfir að ég væri afdráttarlaust þeirrar skoðunar að hana ætti að fara en hún er að sjálfsögðu ein af þeim aðferðum sem menn geta hugsað sér. En það hefur ekki verið niðurstaðan í mínum flokki að leggja til að sú leið væri farin, því svaraði ég.

Í öðru lagi, varðandi umsóknartímafrestinn, hefur mér vitanlega ekkert verið ákveðið um hann annað en að leggja þessar tillögu fram á Alþingi í lok maí. Hún fer til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar. Það er væntanlega á forræði nefndarinnar að ákveða hversu langan tíma hún telur hæfilegan til að fjalla um þetta mál. Ég sé fyrir mér og hef kynnt ákveðnar hugmyndir um það fyrir ýmsum úr stjórnarandstöðunni að við tækjum júnímánuð til umfjöllunar um málið. (Forseti hringir.) En það verður að sjálfsögðu að koma í ljós hvað nefndin treystir sér í því efni, hvort hún telur sig þurfa lengri tíma (Forseti hringir.) eða hugsanlega skemmri.