137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu þar sem hann skaut upp ýmsum skemmtilegum skoteldum. En var hann ekki í kjarnann að fagna fram kominni tillögu og þeim málatilbúnaði t.d. með tilvitnun í grein mína um að við ættum aldrei og gætum ekki staðið að þessu máli og sótt um aðild að sambandinu með trúverðugum hætti án þess að það skapaðist um það breið samstaða meðal þings og þjóðar?

Hér er komin fram tillaga frá ríkisstjórn sem gerir ráð fyrir því að Alþingi Íslendinga álykti um að sótt verði um aðild á ákveðnum forsendum sem þingnefnd mun vinna á næstu vikum og síðan gangi málið frá þingi til þjóðar. Er þetta ekki nákvæmlega eina vegferðin sem við getum farið í þar sem við freistum þess að á bak við slíkt stórmál, slíka umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé breið samstaða á meðal þings og þjóðar og eina leiðin sem er réttlætanlegt og vitlegt að fara í svona stóru máli?