137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir það og lít svo á að þetta sé sá ferill sem sé heppilegastur til þess. Hér kemur fram tillaga frá ríkisstjórn sem gengur til þings og þingnefndar til frekari úrvinnslu, dýpkunar og allrar þeirrar vinnu sem Alþingi Íslendinga kýs að leggja í þá tillögu henni til breytinga og betrumbóta hvers konar. Síðan leggur nefndin það í dóm þingsins hvort það sé meiri hluti fyrir tillögunni, annars gengi hún ekki fram og þar með væri málið úr sögunni. Það verður því aldrei annað en meiri hluti þings á bak við umsóknina þegar hún gengur út.

Þess vegna held ég að þetta sé mjög heppilegur málatilbúnaður og mjög í anda málflutnings þeirra flokka sem haft hafa það á stefnuskrá sinni að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu á tilteknum forsendum og ekki nema um það sé ágæt sátt og samstaða bæði á meðal þings og þjóðar. Þess vegna fagna ég nálgun Framsóknarflokksins í þessu máli almennt og yfirleitt og hef gert alveg frá því að framsóknarmenn voru með það til umfjöllunar á landsfundi sínum í vetur.