137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir ágæta ræðu. Þegar mótmælin voru í vetur var mikil gerjun í gangi og ég batt miklar vonir við þá gerjun. Hún hefur leitt af sér að Borgarahreyfingin er komin með fjóra þingmenn inn á þing og ég bind miklar vonir við það.

Í ræðu Þórs Saaris í stefnuræðu forsætisráðherra 18. maí sagði, með leyfi frú forseta:

„Fjórflokkurinn hefur talað. Það hefur fátt breyst í íslenskum stjórnmálum.“

Og svo áfram: „Í apríl voru kosningar og í þeim kosningum kom Borgarahreyfingin – þjóðin á þing, fjórum þingmönnum að á Alþingi Íslendinga.“

En nú ætlar þessi sama hreyfing að samþykkja tillögu til þingsályktunar sem stendur:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu …“

Alþingi, þessi fjórflokkur, á að taka ákvörðun um að sækja um aðild að einhverju ríkjabandalagi. Hvernig fer það saman við það að þjóðin eigi að ráða? Hvernig fer það saman við þá gerjun sem var á Austurvelli að nú eigi Alþingi, þessi fjórflokkur, að taka ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið, að sækja um? Það er heilmikil ákvörðun að sækja um inngöngu í ákveðið ríkjabandalag.

Hvað mundi gerast ef hér kæmi ályktun um að ganga í Bandaríkin? (BirgJ: Eigum við ekki bara að hafa atkvæðagreiðslu um það eins og annað sem þú mælir með? …) Það er spurning. Á þá Alþingi að taka ákvörðun um að ganga í Bandaríkin? (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) Mér finnst ekki vera samræmi á milli þess sem menn segja og þess sem menn gera. Menn ætla núna að fela þessum fjórflokki að taka ákvörðun um að sækja um aðild en ekki þjóðinni. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig fer þetta saman?