137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:24]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á fyrir manni að liggja að svara fyrirspurnum sem eru þess eðlis að manni fallast eiginlega hendur. Ég skil spurninguna ekki nákvæmlega. Ef Pétur Blöndal vill fá að vita hvort Borgarahreyfingin gæti lifað við það að hann eða Sjálfstæðisflokkurinn legði til að Ísland gengi í Bandaríkin gætum við alveg lifað við það svo lengi sem það væri tryggt að þjóðaratkvæðagreiðsla mundi ráða úrslitum um niðurstöðu málsins.

Við í Borgarahreyfingunni erum ákaflega hlynnt sem víðtækustu lýðræði og enn sem komið er þekkjum við ekki víðtækara lýðræði og fullkomnara en þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi hefur verið allt of spart á að veita þjóðinni aðgang að.

Úr því að ég er búinn að ljúka Bandaríkjunum af er best að koma aftur að Evrópusambandinu. Það sama mundi gilda um það, hv. þm. Pétur Blöndal, við erum áhyggjulaus af þessu máli vegna þess að það er þjóðin sem mun skera úr samkvæmt þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.