137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum nú loks ræða tillögu til þingsályktunar lagða fram af ríkisstjórn um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það skiptir miklu máli að þetta mál skuli vera komið á vettvang Alþingis með þessum hætti og það er vonum seinna.

Því má halda fram með góðum rökum að við höfum of lengi tafið ákvarðanatöku í þessu brýna hagsmunamáli. Við höfum of lengi flækt þetta mál. Við höfum of lengi japlað um það í ótal mörgum nefndum endalaust aftur og aftur hverjir hagsmunir okkar eru þegar þeir lágu nokkurn veginn skýrir fyrir. Og það má líka halda fram með góðum rökum að við höfum vanmetið allan þennan tíma hætturnar sem að okkur steðjuðu vegna þess að við stóðum utan Evrópusambandsins. Fátt sýnir betur það djúpstæða vanmat en efnahagshrunið og veikleiki íslensku krónunnar á undanförnum árum.

Það er ljóst í mínum huga að það eru öll rök fyrir því að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu sem allra fyrst. Hefjum það ferli og fáum úr því skorið hvernig aðildarsamningur lítur út og leggjum hann síðan í dóm þjóðarinnar.

Efnahagslegur stöðugleiki verður ekki auðveldlega fenginn við núverandi aðstæður í efnahagslífinu. Það er ljóst að tengsl okkar við Evrópu eru í uppnámi. Það hefur farið merkilega lítið fyrir umræðu um það að tengsl okkar við Evrópu eru nú í uppnámi. Við uppfyllum ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og erum bundin í viðjar víðtækra gjaldeyrishafta sem koma í veg fyrir frjálsar fjármagnshreyfingar sem er ein af grunnstoðum EES-samningsins. Sérfræðingar sem best er mark takandi á telja verulegan vafa á því að við munum með þessum gjaldmiðli nokkurn tímann getað komið aftur á frjálsum fjármagnsflutningum, óheftum og ótakmörkuðum, með þeim hætti sem EES-samningurinn krefst. Af því leiðir að núverandi samband okkar við Evrópu er ekki sjálfbært. Og þeir sem telja að hægt sé að fresta ákvörðunum um aðildarumsókn og um að hefja það ferli hljóta auðvitað að leggja fram sýn sína á það hvernig núverandi ástand sé sjálfbært (Gripið fram í.) því að það er sannarlega ekki svo.

EES-samningurinn er með öðrum orðum í uppnámi hvað Ísland varðar og öll sú efnahagslega stoð og allur sá markaðsaðgangur sem hann veitir okkur er þar af leiðandi líka í uppnámi. Við getum ekki gengið út frá því sem vísu að hann haldi ef við erum ekki í stakk búin til þess að tryggja frjálsa og óhefta fjármagnsflutninga eins og við erum skuldbundin til að gera samkvæmt samningum.

Það eru víðtæk sóknarfæri samhliða aðild að Evrópusambandinu, um það er ég sannfærður. Það má auðvitað nefna augljós sóknarfæri eins og þau að hagur heimilanna mun vænkast verulega sem og hagur fyrirtækjanna með lækkandi vaxtastigi. Við vinnum of langan vinnudag vegna þess óhagræðis og kostnaðar sem hlýst af of smáum gjaldmiðli. Framleiðni í íslensku atvinnulífi er lægri en hún þyrfti að vera vegna gjaldmiðilsins.

Við vinnum með öðrum orðum of lengi og berum of lítið úr býtum vegna kostnaðarins sem fylgir íslensku krónunni. Um þessar staðreyndir er ekki lengur deilt og það er þess vegna svo mikilvægt að við horfum til þess hvernig við ætlum að reisa við íslenskt efnahagslíf á þeim tímum sem við lifum nú.

Það er heldur ekki um það deilt að aðilar vinnumarkaðarins sjá ekki fram á hvernig hægt er að ná kjarastöðugleika með núverandi gjaldmiðli. Við þessar aðstæður verður ekki auðveldlega séð hvaða valkostur er við að marka nýja stefnu sem leggur grunn undir efnahagslega breidd, skapar íslensku atvinnulífi samkeppnishæf skilyrði og skapar íslenskum heimilum auknar ráðstöfunartekjur vegna lægri vaxta og aukinnar arðsemi í atvinnulífinu.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við vinnum þetta mál vel. Ég vil ítreka þau orð sem fram komu í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar áðan þegar hann lagði út af þingsetningarræðu forseta Íslands: Við eigum að forðast að þetta mál kljúfi þjóðina í herðar niður og við eigum að forðast að þetta mál verði togstreituefni og bitbein okkar næstu áratugi. Þess vegna skiptir svo miklu máli að leggja lýðræðislegan grunn að ákvörðunum og að því hvernig við höldum á málum í samskiptum við Evrópusambandið.

Sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar býður upp á mjög nýstárlega aðferðafræði. Aðferðafræðin felst í því að við tökum ákvörðun um að hefja aðildarumsóknarferlið og við vinnum síðan samningaferlið í samvinnu allra flokka í þinginu. Við erum tilbúin að bjóða öllum flokkum til leiks og vinna öll mál fyrir opnum tjöldum með gagnsæjum og faglegum hætti. Það er þessi aðferðafræði sem er sérstök, nýstárleg og til þess fallin að skapa sátt um þetta mikilvæga hagsmunamál. Ég held að það sé óskaplega mikils virði að við hefjum okkur upp úr flokkahjólförunum og finnum málinu þennan málefnalega farveg.

Fyrst af öllu vil ég nú víkja að málflutningi Borgarahreyfingarinnar í þessari umræðu sem ég vil hrósa sérstaklega og þakka fyrir. Mér finnst mjög mikilvægt að sjá þann jákvæða anda sem einkennir nálgun þeirra gagnvart þessu máli og undirstrika að auðvitað hafa þau haft áhrif á þróun þessa máls. Í tillögu ríkisstjórnarinnar er t.d. sérstaklega kveðið á um faglega samninganefnd en það er t.d. atriði sem kom að frumkvæði Borgarahreyfingarinnar í greinargerðina og skiptir miklu máli. (Gripið fram í.) Það er ekkert augljóst við það og hefði verið í anda hinna gömlu stjórnarhátta að finna einhverja flokksjálka sem ríkisstjórnin mundi senda í þessum erindum. (Gripið fram í.) Það er mjög mikilvægt að leggja þarna grunn að því að fagmennska sé fyrst og fremst höfð að leiðarljósi að og málin séu unnin fyrir opnum tjöldum með gagnsæjum hætti. (Gripið fram í.)

Ég vil líka nefna að Framsóknarflokkurinn hefur markað mjög jákvæða stefnu í þessu máli á flokksþingi sínu og lagt til aðildarumsókn. Ég deili þeirri skoðun með framsóknarmönnum að þau atriði sem þar voru reifuð og Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um séu grundvallaratriði. Ég held að það sé verðugt verkefni fyrir utanríkismálanefnd að vinna úr þeim atriðum í meðferð þessa máls og fella þau inn í nefndarálit.

Það er hins vegar ekki skynsamlegt fyrir íslenska þjóðarhagsmuni að við reifum í smáatriðum samningsmarkmið okkar í opinberum gögnum. Það sem skiptir þar máli er að leita samráðs við utanríkismálanefnd og nýta trúnaðarskyldu hennar samkvæmt 24. gr. þingskapalaga til þess að vinna málin vel og leggja þar traustan grunn með aðkomu allra flokka að samningaferlinu því að auðvitað þurfa samningsmarkmið okkar að byggja á raunsæju mati á því hverju hægt er að ná fram. Og ef við ætlum að vinna öll okkar samningsmarkmið í þingsölum mun það kalla á að allar þær greiningar sem við leggjum til grundvallar þurfa þá jafnframt að vera opinber gögn. Þá er nú farið að sneyðast um samningssvigrúm okkar þegar komið er til samninga og viðsemjendur vita allt sem við ætlum að segja. En ég held að það hljóti að vera sameiginlegt verkefni og markmið okkar allra að við styrkjum stöðu samningamanna okkar en veikjum hana ekki.

Ég legg líka áherslu á að í Sjálfstæðisflokknum eru margir einlægir stuðningsmenn aðildarumsóknar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum saman um verklag sem gerir okkur kleift að nálgast þetta mál með opnum og lýðræðislegum hætti. Draumur minn er að það verði ekki bara stuðningsmenn aðildarumsóknar sem geta hugsað sér að styðja þetta mál heldur líka andstæðingar aðildarumsóknar vegna þess að það er bjargföst trú mín að það sé jafnmikið hagsmunamál einlægra andstæðinga aðildar og einlægra stuðningsmanna aðildar að málið verði vel unnið og að aðkoman að samningaferlinu verði með opnum lýðræðislegum hætti til þess að friður verði um niðurstöðuna í hvora átt sem hún verður.

Fyrir okkur sem erum einlægir stuðningsmenn aðildar yrði það óbærileg tilhugsun ef málinu yrði hafnað vegna þess að illa hefði verið að undirbúningnum staðið. Þá mundu strax í kjölfarið koma upp raddir um það að við hefðum nú getað fengi betri samning strax í kjölfarið. Það verður enginn friður um neiið. Með sama hætti verður heldur enginn friður um jáið ef við vöndum okkur ekki nægilega vel, tryggjum ekki lýðræðislega aðkomu allra, líka andstæðinganna. Og andstæðingarnir munu endalaust segja: Ja, okkar hagsmunir voru fyrir borð bornir og ekki var gætt nægilega vel að undirbúningi málsins. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda vel til verka og að allir komi til leiks til að tryggja þann samfélagslega frið um niðurstöðuna sem er okkur öllum svo mikilvægur.

Virðulegi forseti. Í morgun kom fram tillaga sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um mögulega aðildarumsókn að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Ítarlegri og vandaðri vinnubrögð.) Þar er ítarlegri lýsing á vinnubrögðunum. Ég get alveg tekið undir þá ítarlegu lýsingu á vinnubrögðunum og tel fulla ástæðu fyrir utanríkismálanefnd að horfa til þess við meðferð þessa máls. Ég sé ekkert að því að tillagan verði að því leytinu notuð sem fyrirmynd um það verklag sem tæki við hér í sumar að samþykktri tillögu ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild nú þegar. Þegar við erum búin að afgreiða þá tillögu og ákveða að sækja um aðildina (Gripið fram í.) yrði þetta verklag það sem mundi einkenna vinnu utanríkismálanefndar í kjölfarið og yrði grunnur að aðildarviðræðunum sjálfum.

Í grunninn snýst ágreiningur minn við tillögu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna bara um eitt. Það er að tillaga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er þess eðlis að hún felur í sér enn eina frestunina á þessu máli. (Gripið fram í.) Enn einn ganginn til að tefja málið (Gripið fram í.) án þess þó að færð séu fyrir því nokkur rök að eitthvað náist fram með þeirri töf sem ekki er hægt að ná fram með öðrum hætti. (Gripið fram í.)

Fyrir liggur að það eru margar ástæður fyrir því af hverju við þurfum að sækja um aðild sem fyrst og af hverju það skiptir máli. Í fyrsta lagi eru það hin efnahagslegu rök sem ég rakti hér í byrjun, að núverandi ástand í efnahagsmálum er ósjálfbært. Að við núverandi aðstæður er ekki hægt að leggja grunn að kjarasamningum, að við núverandi aðstæður er viðhaldið óvissu í efnahagslífinu sem skaðar efnahagslegan viðsnúning okkar. Í annan stað eru þau augljósu rök að frændur okkar Svíar eru að taka við formennsku í Evrópusambandinu og þeir hafa gefið okkur skýran ádrátt um að þeir vilji hafa þetta mál framarlega á verkefnalista sínum næsta hálfa árið. Og þó svo að það tryggi okkur ekki betri niðurstöðu í samningum við Evrópusambandið getur það haft veruleg áhrif á hversu hratt gengur að vinna málið. Það skiptir okkur vissulega máli að komast sem fyrst inn í þá biðröð sem er um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að við höfum af því augljósan hag að lenda ekki aftarlega þar.

Þar fyrir utan liggur fyrir að skipuð verður ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í árslok og þeir tveir framkvæmdastjórar sem þekkja vel til málefna Íslands, stækkunarframkvæmdastjórinn og sjávarútvegsframkvæmdastjórinn, ljúka sínu starfstímabili þá. Ég tel að það séu alveg augljósir þjóðarhagsmunir að því að nýta (Gripið fram í.) þau tengsl sem við höfum náð að skapa við alla þessa aðila á næstu mánuðum. Við þurfum á því að halda að málið gangi hratt fram (Gripið fram í.) og við höfum lagt mikla vinnu í að kynna okkar málstað gagnvart þeim aðilum sem nú eru á leiðinni út.

Virðulegi forseti. Ef fresta á þessu máli þarf að færa fram fyrir því haldbær rök. Þau hafa ekki verið færð fram og það eru ekki rök í málinu að sumir menn í ákveðnum stjórnmálaflokkum eigi erfitt með að samþykkja þetta mál. Það eru ekki haldbær rök fyrir frestun. Og ef gagnrýnendur þessa máls telja frestun nauðsynlega ber þeim auðvitað skylda til þess að útskýra hvað það er sem á að vera hægt að ná fram á tveimur næstu mánuðum í lengri undirbúningi miðað við þá augljósu hagsmuni sem eru í húfi með því að fresta þessu máli. Það er mjög mikilvægt að við tökum nú það skref sem fyrir löngu er orðið tímabært og samþykkjum þessa tillögu.