137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði niður til andstæðinga aðildar með því að segja að þeir séu að japla á fundum. Svo talaði hann um að EES-samningurinn væri í uppnámi og hann hótaði ýmsu. Síðan kom hann með töfrasprotann: Ef við göngum inn í Evrópusambandið lagast vextirnir, verðlag lagast o.s.frv. Töfrasprotinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi sýn til 50 eða 100 ára á það hvernig Íslandi reiðir af sem smáhreppi inni í risaríki. Ég vil spyrja hann að því hvort hann sé ekki að villa um fyrir þjóðinni þegar hann veit að evran verður ekki tekin upp fyrr en eftir sjö eða tíu ár þó að við gengjum strax í Evrópusambandið, jafnvel 30 ár segja sumir. Ég spyr hann að því hvort hrunið í haust hafi ekki verið út af Evrópusambandinu. Við vorum með evrópskar reglur í fjármálaheiminum og Icesave-reikningarnir voru hreinlega galli á evrópskum reglum. Við vorum kúguð af Evrópusambandinu til að fallast á að greiða þá reikninga.