137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar eftir rökum fyrir aðild að Evrópusambandinu og hvaða rök séu fyrir því að efnahagslegur stöðugleiki aukist með aðild að Evrópusambandinu. Ég bendi hv. þingmanni á, vegna þess að það er augljóst að talsamband Sjálfstæðisflokksins við atvinnulífið er löngu rofið, að t.d. hafa ágæt hagsmunasamtök atvinnulífsins lagt fram mjög ítarlegan rökstuðning í þessa veru. Ég nefni Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Ég nefni líka þá vinnu sem fram hefur farið á vettvangi Samtaka atvinnulífsins. (Gripið fram í.)

Ég ætlaði nefnilega að minna hv. þingmann á það, vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hvorki skilja upp né niður í þörfum atvinnulífsins nú til dags, að efnahagsleg endurreisn í þessu landi verður ekki nema með skipun nýrra starfa sem verða fyrst og fremst til í iðnaði og þjónustu. Það er því þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ágæt lexía að reyna að tala við atvinnulífið og skilja hagsmuni atvinnulífsins og þarfir þess. Þá fær hv. þingmaður kannski svar við spurningum sínum (Forseti hringir.) um hin augljósu efnahagslegu og rekstrarlegu rök fyrir aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.)