137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra ræddi hér áðan um EES-samninginn og að hann væri í uppnámi. Ég skildi hann þannig að hann væri í uppnámi vegna þess hvernig staða þjóðarinnar væri. Þá velti ég fyrir mér ef hann er í uppnámi út af því, hvernig við getum þá sótt um aðild að bandalagi sem gerir þær kröfur sem væntanlega eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Hann talar líka um langan vinnudag. Ég velti því þá upp hvort það geti verið að langur vinnudagur á Íslandi sé vegna þess hvernig þeir sem semja á vinnumarkaði, þ.e. verkalýsðfélögin, standa sig. Hann veit það kannski betur ég.

Ég mótmæli því að verið sé að fresta þessu máli í tillögu þeirri sem við leggjum fram. Það stendur klárt og skýrt í tillögunni að ef hægt er að gera þetta á styttri tíma þá skila menn af sér, það er einfaldlega þannig. Það er ekki sagt að málið skuli unnið fram að þessum degi. Ef hægt er að gera það á styttri tíma er það bara fínt.

Ég vil líka spyrja hann, af því að hann kom inn á það í byrjun ræðu sinnar: Er það rétt skilið hjá mér að frumvarp það sem kemur frá ríkisstjórninni er lagt fram (Forseti hringir.) af ríkisstjórninni og þá allri ríkisstjórninni? Stendur hún öll á bak við það?